Dagur íslenskrar tungu
Í dag 16. nóvember er „dagur íslenskrar tungu“ en að tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur menntamálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.
Dagur íslenskrar tungu var síðan haldin hátíðlegur í fyrsta sinn árið 1996. Íslendingar eru hvattir til að draga fána að hún á degi íslenskrar tungu. Í ár fellur dagur íslenskrar tungu á tveggja árhundraða fæðingarafmæli skáldsins og náttúrufræðingsins frá Öxnadal.
Íslensk náttúra í ljóðum Jónasar og annarra íslenskra skálda hefur verið tekin saman á gullfallegum vef sem er samvinnuverkefni MS og Hvíta hússins. Á forsíðumynd vefsins er samklippusvipmynd af Jónasi, mynduð úr 816 náttúruljósmyndum eftir ýmsa höfunda. Hver mynd er tengill á ljóð sem geta fallið undir það að vera náttúruljóð.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Dagur íslenskrar tungu“, Náttúran.is: 16. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/16/dagur-islenskrar-tungu/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.