Umhverfisráðuneytið hefur tilkynnt sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að ekki sé unnt að staðfesta tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins er varðar virkjun Þjórsár fyrr en kröfum skipulags- og byggingarlaga um forkynningu hefur verið fullnægt.

Af hálfu Skipulagsstofnunar, sem yfirfór umrædda breytingartillögu sveitarstjórnar, var viðurkennt að málsmeðferð sveitarstjórnar væri haldin þeim ágalla að fyrirmælum 17. gr. skipulags- og byggingarlaga um forkynningu skipulags hefði ekki verið fullnægt, en stofnunin mælti þrátt fyrir það með staðfestingu breytingartillögunnar. Af hálfu ráðuneytisins var hins vegar litið svo á að ákvæði 17. gr. væru ekki frávíkjanleg. Þá var og til þess litið að skipulags- og byggingarlög byggjast ekki hvað síst á að vönduð lýðræðisleg vinnubrögð séu viðhöfð við gerð skipulags.

Með tilliti til þessa var það niðurstaða ráðuneytisins að ekki væri unnt að staðfesta skipulagstillöguna að svo stöddu og var því þess vegna beint til sveitarstjórnar að fullnægja fyrirmælum um forkynningu áður en málið verður sent ráðuneytinu aftur til afgreiðslu.

Meðfylgjandi er 17. grein skipulags- og byggingarlaga sem niðurstaða umhverfisráðuneytisins byggir á.

17. gr. Kynning aðalskipulagstillögu.
Áður en tillaga að aðalskipulagi eða verulegum breytingum á því er tekin til formlegrar afgreiðslu í sveitarstjórn skal tillagan, markmið hennar og forsendur kynnt íbúum sveitarfélagsins á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt.
Birt:
14. maí 2009
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Breyting á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps ekki staðfest að svo stöddu“, Náttúran.is: 14. maí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/05/14/breyting-aoalskipulagi-skeioa-og-gnupverjahrepps-e/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: