Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er þátttakandi í tveimur stórum og spennandi verkefnum í menningartengdri ferðaþjónustu.

Annað verkefnið sný r að ferðaþjónustu fyrir börn með áherslu á sögu og náttúru og hefur verkefnið haft vinnuheitið „Gagn og gaman“. Þátttakendur í verkefninu bjóða nú þegar upp á afþreyingu og fræðslu fyrir börn en hyggjast þróa það enn frekar. Í fyrstu verður sjónum beint að fjölskyldum á ferð en síðan að skólahópum og öðrum hópum barna og unglinga, bæði innlendum og erlendum. Unnið verður að markaðsgreiningu og stefnumörkun, kynningarefni undirbúið og bók fyrir unga ferðalanga verður gefin út nú í vor. Þá verður hugað að útileiksvæðum og leiktækjum.

Hitt verkefnið kallast „Við sjávarsíðuna“ og gengur út á að tengja saman þá starfsemi, staði, svæði og sýningar á Snæfellsnesi sem á einhvern hátt tengjast sjávarútvegi og strandmenningu. Í byrjun verður stefnumörkun og hugmyndarvinna við ímynd ráðandi og í framhaldinu verður unnið að vöruþróun og kynningarefni fyrir staðina. Verkefnislýsingin er sett upp eins og verkferill línuveiða. Þeir staðir þar sem fólki gefst kostur á að upplifa, fræðast, njóta og meðtaka eitthvað sem tengist sjávarútvegi og strandmenningu á Snæfellsnesi eru þá krókar eða önglar og getur þeim fjölgað eftir því sem fleiri koma inn í verkefnið.

Verkefnin hlutu bæði styrki úr Gáttum, verkefni á vegum iðnaðarráðuneytis, sem hefur það að markmiði að auka framboð á arðbærri vöru eða þjónustu í menningartengdri ferðaþjónustu. Bæði verkefnin hlutu fjögurra milljóna króna styrki til tveggja ára til að þróa áfram og vinna að verkefnunum. 

Að verkefninu „Gagn og gaman“ standa auk þjóðgarðsins Bjarteyjarsandur í Hvalfirði, Eiríksstaðir í Dölum, Eyrbyggja – Sögumiðstöð í Grundarfirði, Fossatún og Hraunsnef í Borgarfirði, Gljúfrasteinn í Mosfellsbæ, Landnámssetrið í Borgarnesi, Sæferðir og Lárus Ástmar Hannesson kennari í Stykkishólmi ásamt All Senses-hópnum og Markaðsstofu Vesturlands. Verkefnisstjóri er Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ILDI. Að verkefninu „Sjávarsíðan“ standa auk þjóðgarðsins ANOK-margmiðlun í Stykkishólmi, Sjávarsafnið í Ólafsvík, Sjóminjasafnið á Hellissandi og Átthagastofa Snæfellsbæjar. Verkefnisstjóri er Margrét Björk Björnsdóttir ráðgjafi hjá Atvinnuráðgjöf Vesturlands.

Gáttaverkefni iðnaðarráðuneytisins var hleypt af stokkunum á liðnu sumri en framkvæmd þess er í höndum Impru hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands auk þess sem  Ferðamálastofa og Háskólinn á Hólum eiga aðild að því.

Umsóknarferlið var í tveimur stigum. Fyrst var sótt um styrk vegna forverkefnis og fékk hluti umsækjenda svokallaðan forverkefnisstyrk til að móta verkefnistillögu fyrir  tveggja ára þróunarverkefni. Alls barst Impru 51 umsókn um forverkefni, en 16  verkefni voru valin og nokkrum umsóknum steypt saman, þannig að úr urðu sjö hópar. Úr þeim hópi fengu þrjú verkefni áframhaldandi brautargengi, þar af þau tvö sem hér er sagt frá.

Mynd: Krabbar í glasi. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
1. febrúar 2009
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Gagn og gaman við sjávarsíðuna“, Náttúran.is: 1. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/01/gagn-og-gaman-vio-sjavarsiouna/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: