Orka úr landi Grindavíkur verður í ljósi frétta frá ársfundi SSS varla seld hugsanlegu álveri í Helguvík. Þar með ríkir óvissa um orkuöflun fyrir 2. áfanga álversins. Viðræður Landsvirkjunar og Norðuráls hafa ekki heldur borið árangur enda sýnt að aðrir aðilar geta greitt betra verð en áliðnaðurinn á að venjast. Í áformun Norðuráls er gert ráð fyrir umtalsverðri orku úr landi Grindavíkur en það getur varla gengið eftir ef Grindvíkingar standa við áform sín um orkufreka uppbyggingu sem er „ekki álver alla vega“ eins og Ólafur Örn Ólafsson bæjarstjóri orðaði það í niðurlagi þessarar fréttar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
 
Að auki hlýtur andstaðan við Bitruvirkjun að vera Norðurálsmönnum áhyggjuefni þar sem þeirri orku er að mestu ætlað að fara til fyrirhugaðs álvers í Helguvík.

Grindavík hefur hafnað þvi að lagðar verði nýjar línuleiðir innan sveitarfélagsins og umhverfisnefnd í Vogum hefur gengið enn lengra og hafnað öllum valkostum Landsnets. Þá vilja Grindvíkingar að ef til komi jarðsterengir þá verði þeir lagðir meðfram fyrirliggjandi vegum. Þessi afstaða Grindvíkinga er sérstakt fagnaðarefni því hugmyndir Landsnets um orkuflutninga með jarðstrengum innan Reykjanesfólkvangs myndu valda verulegu raski.
 
Fjölmörg sveitarfélög, allt frá Hengli (Bitra & Hverahlíð) til Helguvíkur, eiga eftir að taka afstöðu til orkuflutninga sem munu skerða landgæði og landslag án þess að tekjur fáist fyrir spjöllin. Það lítur því út fyrir að álver í Helguvik hangi á bláþræði, bæði hvað varðar öflun og afhendingu orku.
 
Höfundur er framkvæmdastjóri Landverndar. Myndin er af Bergi Sigurðssyni framkvæmdastjóra Landverndar.
Birt:
11. nóvember 2007
Höfundur:
Bergur Sigurðsson
Tilvitnun:
Bergur Sigurðsson „Norðurál komið í þrot “, Náttúran.is: 11. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/11/norurl-komi-rot/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: