OR í samstarf við Alþjóðahús
Orkuveita Reykjavíkur er nú í samstarfi við Alþjóðahús um upplýsingamiðlun til viðskiptavina af erlendum uppruna. Tilgangurinn með samstarfinu er að kynna fyrir viðskiptavinum þær reglur sem gilda í viðskiptum við fyrirtækið, t.d. mikilvægi þess að tilkynna búferlaflutning til Orkuveitu Reykjavíkur. Gefnir hafa verið út einblöðungar á þremur erlendum tungumálum, auk íslensku, í þessu skyni.
Ábyrgð húseigenda
Nokkuð hefur borið á því að húseigendur hafi ekki tilkynnt um aðsetursskipti til Orkuveitunnar er leigjendur þeirra skipta um húsnæði og situr þá viðkomandi leigjandi jafnvel uppi með orkureikninga sem hann hefur ekki stofnað til. Þrátt fyrir að meginreglan sé sú að skráður orkunotandi beri ábyrgð á orkureikningum, þá bera húseigendur ábyrgð á því að réttur aðili sé skráður sem notandi í þeim eignum sem þeir eiga. Á þetta við hvort sem um er að ræða leigjendur eða húseigendur sjálfa. Af þeim sökum kann að vera að húseigendur verði gerðir ábyrgir fyrir orkureikningum, hafi þeir ekki sinnt þeirri skyldu sinni að tilkynna um nýjan notanda í húseign sinni.
Forðist flækjur
Markmiðið er að leigjendum sé kunnugt um að þeir geta sjálfir, við aðsetursskipti, tilkynnt um nýjan notkunarstað til Orkuveitunnar og óskað eftir mælaálestri til að forðast rukkanir fyrir orkunotkun sem á sér stað eftir flutning. Þegar ekki hefur verið rétt staðið að málum varðandi flutningstilkynningar og mælaálestur hefur Orkuveita Reykjavíkur leitast við að leiðrétta slíkt en það getur þó oft verið bæði flókið og tímafrekt, sérstaklega ef tungumálaörðugleikar spila inn í. Í sumum tilvikum getur eigandi húsnæðis orðið ábyrgur fyrir uppgjöri, hafi hann ekki uppfyllt lagaskyldu sína um að réttir aðilar í húsnæði í hans eigu séu skráðir orkunotendur.
Tælenska, enska, pólska og íslenska
Orkuveitan hefur í samstarfi við Alþjóðahús gefið út einblöðunga með öllum nauðsynlegum upplýsingum varðandi það hvað þarf að gera þegar flutt er og er sá einblöðungur gefinn út á íslensku, ensku, pólsku og taílensku. Það er markmið Orkuveitunnar að veita framúrskarandi þjónustu og uppfylla þarfir ólíkra hópa viðskiptavina fyrirtækisins. Með samstarfinu við Alþjóðahús er komið til móts við þarfir þeirra viðskiptavina sem hvorki tala né skilja íslensku. Þess má geta að á heimasíðu Orkuveitunnar, www.or.is, er einnig að finna gagnlegar upplýsingar á þessum tungumálum.
Birt:
Tilvitnun:
Eiríkur Hjálmarsson „OR í samstarf við Alþjóðahús“, Náttúran.is: 21. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/21/or-i-samstarf-vio-althjooahus/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.