Grasagarðurinn og Sigurður Guðmundsson málari
Nú á dögunum voru tekin í notkun ný skilti við innkomuleiðir í Grasagarð Reykjavíkur í Laugardal. Auk skiltanna voru settir upp vegvísar og merkingar á helstu byggingar garðisins.
Grasagarðurinn er tvímælalaust ein af leyndum perlum borgarinnar. Einn athyglisverðasti staður garðsins er safn íslenskra plantna sem stendur á milli Garðskálans og skrifstofu Grasagarðsins. Þar má finna flestar þær plöntur sem eru upprunalegar í íslenskri náttúru og hægt er að koma upp í manngerðu umhverfi. Þarna á litlum bletti í garðinum má finna ótrúlegt úrval íslenskra plantna, sem vel er hlúð að og vaxa sumar hverjar í umhverfi sem er ólíkt þeirra upprunalegu aðstæðum. Þetta horn Grasagarðsins ætti að vera hverjum unnanda íslenkrar náttúru skylduskoðun.
Skiltin við innkomuleiðirnar í Grasagarðinn eru skreytt mynstrum eftir Sigurð Guðumundson málara, sem lést árið 1874, en einna þekktastur er hann fyrir að hafa endurhannað íslensku þjóðbúningana. Fljótlega í hönnunarferli skiltanna var Árna Tryggvasyni hönnuði bent á að leita í smiðju Sigurðar Guðmundssonar. Í þeirri vinnu kom svo í ljós að um 1870 kom Sigurður manna fyrstur fram með þá hugmynd, að gera Laugardalinn að nokkurs konar almenningsgarði og skemmtanasvæði bæjarbúa. Draumur hans rættist svo ekki fyrr en tæpum 80 árum seinna þegar þáverandi bæjaryfirvöld hófu framkvæmdir í Laugardal með það í huga að gera dalinn að almenningsgarði, þegar hugmyndir Sigurðar höfðu legið gleymdar og ónýttar í áratugi og komu reyndar ekki í ljós fyrr en árum eftir að þær urðu að veruleika. Nú fyrst á seinustu árum hefur svo komið í ljós, hversu framsýnn Sigurður var, því auk Laugardalsins, vildi hann gera Elliðaárdalinn og það svæði sem nú kallast Heiðmörk að gróðurvinjum og griðasvæðum bæjarbúa.
Því var það af mikilli gleði og metnaði, sem forráðamenn Grasagarðsins ákváðu að gera veg Sigurðar sem mestann í nýjum merkingum og útliti garðsins. Mynstur hans voru því notuð í skilti, bæklinga og annað kynnigarefni sem út kom í vor og á áætlun er að setja upp frekara efni í garðinum sem segir meira frá Sigurði sjálfum og hans verkum.
Myndin er af skilti sem þjónar sem vegvísir um garðinn. Ljósmynd: Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Tryggvason „Grasagarðurinn og Sigurður Guðmundsson málari“, Náttúran.is: 16. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/16/grasagarurinn-og-sigurur-gumundsson-mlari/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.