Borgarstjórn Reykjavíkur hefur ákveðið að unnin verði græn samgöngustefna fyrir starfsemi Reykjavíkurborgar. „Slík stefna gæti orðið eitt af aðalsmerkjum Reykjavíkurborgar,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri en tillaga þessa efnis var samþykkt með öllum atkvæðum á fundi borgarstjórnar í dag.

Á fundi borgarstjórnar kom fram að markmið samgöngustefnunnar yrði að innleiða vistvænar samgöngur í starfsemi borgarinnar og stuðla að betra og umhverfisvænna samgöngumynstri til framtíðar. Samgöngustefnan er hluti af Grænum skrefum borgarinnar og mun ná til allra sviða og stofnana Reykjavíkurborgar og hlaut heitið: Grænar ferðir.

„Grænar ferðir er stefna sem hefur áhrif á ferðamáta starfsmanna borgarinnar. Markmiðið er að Reykjavíkurborg verði öðrum til fyrirmyndar og sýni gott fordæmi með því að innleiða vistvænar samgöngur í starfsemi sinni,“ sagði Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir,  formaður umhverfis- og samgönguráðs sem mælti fyrir tillögunni í borgarstjórn.

„Þetta þýðir meðal annars að borgin skuldbindur sig til að bjóða starfsmönnum sínum að nýta aðra kosti en einkabílinn vegna starfa sinna,” sagði Þorbjörg Helga. „Þannig er komið til móts við þá starfsmenn sem velja að ferðast til og frá vinnu á hjóli, gangandi eða með almenningssamgöngum.“

Umhverfis- og samgöngusviði, í samráði við mannauðsskrifstofu, verður falið að leiða innleiðingu stefnunnar, sem komi til endanlegrar samþykktar borgarráðs. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
18. nóvember 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Græn samgöngustefna Reykjavíkurborgar “, Náttúran.is: 18. nóvember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/11/18/graen-samgongustefna-reykjavikurborgar/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: