Fyrsta heildarlöggjöfin um loftslagsmál samþykkt
Alþingi hefur samþykkt ný lög um loftslagsmál, sem leysa af hólmi lög nr. 65/2007 um losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta er fyrsta heildstæða löggjöf á sviði loftslagsmála hérlendis.
Markmið lagasetningarinnar er að meginstefnu tvíþætt. Annars vegar að setja heildarlöggjöf um loftslagsmál og gefa með því málaflokknum tilhlýðinlegan gaum sem sjálfstæðum málaflokki meðal umhverfismála. Með því er loftslagsmálum mörkuð viðeigandi staða í íslenskri löggjöf og fyrsta skrefið er stigið í átt að því að sameina undir einum hatti sem flestar reglur er varða loftslagsvanda samtímans.
Hins vegar er markmiðið að leiða í lög reglur um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, ETS kerfið sem er hluti af EES-samningnum. Þar er að hluta til um að ræða reglur sem þegar höfðu verið í lög leiddar á Íslandi og að hluta til reglur sem eru nýjar. Þetta felur m.a. í sér að Ísland getur nú haft tekjur af viðskiptakerfinu með því að selja þær losunarheimildir sem það fær úthlutað til uppboðs á almennum markaði.
Meðal nýmæla í lögunum er að fest er í lög skylda til að gera aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, kostnaðarmeta hana og uppfæra með reglubundnum hætti. Kveðið er á um stofnun Loftslagssjóðs sem hefur það hlutverk að styðja við verkefni er stuðlað geta að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, aðlögun að afleiðingum loftslagsbreytinga og aukinni þekkingu almennings á loftslagsbreytingum af mannavöldum, afleiðingum þeirra og mögulegum aðgerðum til að sporna við þeim. Gert er ráð fyrir því að sjóðurinn verði fjármagnaður með tekjum sem íslenska ríkið fær af uppboðum á losunarheimildum sem því verður úthlutað. Þá má nefna að meðal markmiða laganna er að stuðla að aðlögun að loftslagsbreytingum en slíkt markmið hefur ekki verið áður að finna í lögum hér á landi.
Um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir
Viðskiptkerfi ESB með losunarheimildir hefur verið starfrækt innan ESB frá árinu 2005. Viðskiptakerfið er meginstjórntæki ESB á sviði loftslagsmála og er ætlað að mynda hagrænan hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og efla þróun loftslagsvænnar tækni.
Ísland, Noregur og Liechtenstein hafa frá árinu 2008 verið þátttakendur í viðskiptakerfinu í gegn um EES-samninginn. Þar sem sú iðnaðarstarfsemi á Íslandi sem hefði átt að falla undir viðskiptakerfið á tímabilinu 2008-2012 var sérstaklega undanþegin það tímabil hóf Ísland að taka virkan þátt í kerfinu 1. janúar sl. þegar flugstarfsemi var felld undir viðskiptakerfið.
Um næstu áramót verður svo meiri breyting á viðskiptakerfinu þegar tilteknir nýir geirar iðnaðar á Íslandi munu falla undir það, þ.m.t. álframleiðsla, járnblendi og steinullarframleiðsla, auk fiskimjölsframleiðslu með olíukötlum. Þetta þýðir að nær allur iðnaður á Íslandi sem losar gróðurhúsalofttegundir mun frá og með næstu áramótum þurfa að eiga losunarheimildir til samræmis við losun sína.
Ljósmynd: Breiðfjörður, Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Fyrsta heildarlöggjöfin um loftslagsmál samþykkt“, Náttúran.is: 25. júní 2012 URL: http://nature.is/d/2012/06/25/fyrsta-heildarloggjofin-um-loftslagsmal-samthykkt/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.