Til að gylla kosningaloforð sín um tvö ný álver hafa forustumenn Sjálfstæðisflokksins reynt að gera sem mest úr fjölda afleiddra starfa en þagað þunnu hljóði yfir umhverfisáhrifum virkjanaframkvæmda sem samsvara tveimur nýjum Kárahnjúkavirkjunum að afli. Virkjanir fyrir álver í Helguvík og á Bakka.

Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson fullyrti í kosningaþætti Rikissjónvarpsins þann 8. apríl sl. að þau störf sem fylgja tveimur nýjum álverum og „… afleidd áhrif, skipta þúsundum, skipta þúsundum.” Í kosningaauglýsingum Sjálfstæðisflokksins er fullyrt að um sé að ræða 6000 afleidd störf.

Þessar tölur Sjálfstæðisflokksins eru mun hærri en annars staðar þekkist. Áhrif álvers á atvinnu í byggðarlagi gætu verið nokkur, t.d. er ekki ólíklegt að um 1000 ný störf tengist álveri Fjarðaáls í Reyðarfirði þegar allt er talið (þar með taldir þeir sem vinna í álverinu). Á hinn bóginn eru ruðningsáhrif álvers Fjarðaáls einnig umtalsverð.

Álver skapa fá störf og því hafa ráðamenn lagt áherslu á svo kölluð afleidd störf. Áhrif álvera á atvinnustig/atvinnuleysi eru þó engin þegar til lengdar lætur. Um það ku ekki vera nokkrar deilur meðal hagfræðinga. Forustumenn Sjálfstæðisflokksins verða að að skýra þessi efnahagsundur sín betur.

Náttúruverndarsamtök Íslands gera þá kröfu að Sjálfstæðisflokkurinn geri hreint fyrir sínum dyrum og upplýsi kjósendur um hvaða orkulindir flokkurinn vill að virkjaðar verði til að knýja tvö ný álver. Vill Sjálfstæðisflokkurinn að Skjálfandafljót eða Jökulvötnin í Skagafirði verði virkjuð? Vill Sjálfstæðisflokkurinn að virkjað verði í Krísuvík, Austurengjum og Eldvörpum?
Birt:
21. apríl 2009
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Sjálfstæðisflokkurinn geri hreint fyrir sínum dyrum “, Náttúran.is: 21. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/21/sjalfstaeoisflokkurinn-geri-hreint-fyrir-sinum-dyr/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: