Burt með nagladekkin!
Svifryk hefur farið 19 sinnum yfir heilsuverndarmörk á þessu ári en mátti einungis fara 18 sinnum yfir á árinu samkvæmt reglugerð. Nagladekk eru á undanhaldi en þau eru helsti orsakavaldur svifryks að vetrarlagi.
Nagladekk spæna upp malbikið hundrað sinnum hraðar en önnur dekk og valda með því meira svifryki og auknum kostnaði við viðhald gatna. Tímabilið þar sem ekki er bannað að aka um á nagladekkjum er frá 1. nóvember til 15. apríl.
Nagladekk nýtast í raun illa í Reykjavík og duga góð alhliða vetrardekk betur í flestum aðstæðum. Einnig er vetrarþjónusta gatna góð og þá fáu daga sem færð er slæm er hægt að ferðast um borgina með öðrum hætti en einkabíl. Níu af þeim nítján skiptum sem svifryk fór yfir heilsuverndarmörk eru tengd umferð á götum borgarinnar. Sex sinnum olli sandstormur svifryksmenguninni, einu sinni voru það framkvæmdir við Grensásstöðina þar sem mælitækið er og þrisvar sinnum var hún af völdum mengunar frá Evrópu.
Undanfarin ár hefur dregið jafnt og þétt úr notkun nagladekkja í Reykjavík. Á liðnum vetri töldust 44% bifreiða á nöglum en 47% árið áður. Veturinn 2001-2002 voru 67% bifreiða á nöglum. Reykjavíkurborg mun á næstunni flytja auglýsingar í útvarpi þar sem ökumenn eru hvattir til að setja góð alhliða vetrardekk undir bílana sína – án nagla.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Burt með nagladekkin!“, Náttúran.is: 20. október 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/20/burt-meo-nagladekkin/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.