Þann 24. júní sl. veitti Náttúrulækningafélag Reykjavíkur (NLFR) sína árlegu viðurkenningu til einstaklings eða fyrirtækis sem þykir hafa starfað í samræmi við 3. grein laga NLFR frá 1949; að stuðla að góðri heilsu og hollustu. Að þessu sinni hljóta viðurkenninguna þau Kristján Oddsson og Dóra Ruf, ábúendur á Neðra-Hálsi í Kjós og stofnendur Biobús ehf., fyrir „frumkvöðla- og þróunarstarf í framleiðslu á lífrænum mjólkurafurðum“.

Alúð og metnaður við framleiðsluferlið
Í tilkynningu frá NLFR segir að þau Kristján og Dóra hafi sýnt og sannað í verki að alúð og mikill metnaður sé lagður í framleiðsluferlið. Fari þar saman skynsamleg landnýting, náttúruleg fóðrun og eðlislæg og næg hreyfing ásamt góðum aðbúnaði dýranna, notkun lífrænna hráefna við úrvinnslu, hófleg en smekkleg umbúðanotkun og upplýsandi framsetning afurðanna.
Biobú ehf. framleiðir nú fimm tegundir af jógúrt, auk þess sem Mjólkursamsalan framleiðir ófitusprengda lífræna ný mjólk úr hráefnum frá Neðra-Hálsi. Undirtektir neytenda hafa verið svo góðar að framleiðsla er í stöðugri aukningu og þróun og hefur salan farið fram úr björtustu vonum þeirra sem að henni standa. Auk þessa komu ábúendur á Neðra-Hálsi á fót heimasíðunni www.biobu.is, sem birtir fræðandi og áhugaverðar fréttir og fræðigreinar um lífræna ræktun, mjólkurframleiðslu og mjólkurafurðir.

Lífrænt vottað frá 1996
Á Neðra-Hálsi hafa lífrænar aðferðir verið notaðar lengi og var búið meðal þeirra fyrstu hér á landi sem hlutu alþjóðlega vottun Vottunarstofunnar Túns þess efnis árið
1996. Mjólkurkýrnar eru eingöngu fóðraðar á grasfóðri, sem er hið náttúruleg fóður jórturdýra, og er það í sjálfu sér mikill gæðastimpill á afurðir þeirra. Lífræn, gerilsneydd ný mjólk var fyrst sett á markað 1998 og lífræn jógúrt kom síðan á markað
árið 2003. Við vinnslu hrámjólkurinnar er hin náttúrulega fita látin halda sér ósprengd og öll íblöndunarefni í jógúrtvinnslunni eru vottuð lífræn.

Birt:
13. júlí 2008
Höfundur:
smh
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
smh „Bíóbú hlýtur viðurkenningu NLFR“, Náttúran.is: 13. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/13/biobu-hlytur-viourkenningu-nlfr/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: