„Á leið minni heim í gær tók fjölskyldubíll af stað á hjárein, bílstjórinn taldi sig einungis þurfa að líta í eina átt og ók yfir hjólið mitt með mig á því,“ segir Guðrún skólastjóri Vinnuskóla Reykjavíkur. Hún stóð upp óbrotin en lemstruð. „Óverjandi er að hjólreiðamenn verji ekki toppstykkið sitt með hjálmi því það fæst ekki endurútgefið eða viðgert hjá neinum,“ segir hún.

Hjálmurinn bjargaði Guðrúnu Þórsdóttir, helsta hjólreiðaþjarki Umhverfis- og samgöngusviðs, þegar hún var keyrð niður í gær á merktri gangbraut við Kringlumýrarbraut og Bústaðaveg. Hún hjólaði frá Borgartúni 10-12 eftir Kringlumýrarbraut í undirgöng hjá Kringlunni, framhjá Borgarleikhúsinu og þaðan á göngurein eftir Kringlumýrarbraut út á Bústaðaveg. „Ég fór út á gangbrautina en þá tekur bifreið af stað og ekur að mér og bílstjórinn horfir aðeins til vinstri og gerir ekki ráð fyrir neinum fyrir framan sig. Ég hugsa: „Ætlar hún yfir mig?“  Svo er ekið á mig, ég skell í götuna og bílinn keyrir yfir hjólið,“ segir hún.

Guðrún hvikar ekki frá hjólreiðahugsjón sinni en brýnir fyrir fólki að nota hjálm og taka þátt  í Hjólað í vinnuna. Guðrún segist hlakka til að stiga fótstigið aftur enda hjólar hún árið um kring. „Við erum aldrei of örugg til að nota ekki hjálminn,“ segir hún, „aðstæður voru öruggar fyrir mig og ég gat ekki búist við að þessi bíll færi af stað og keyrði mig bara niður, en of fáir bílstjórar hafa lært að gera ráð fyrir hjólreiðamönnum.“

Myndin af Guðrúnu Þórsdóttur er frá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkur.

Birt:
8. maí 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Hjálmurinn bjargaði hjólreiðaþjarki “, Náttúran.is: 8. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/08/hjalmurinn-bjargaoi-hjolreioathjarki/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: