Með textílvöru er átt við hvers kyns vefnaðarvöru sem og fleiri fata-, áklæðis- og bólstrunarefni. Umhverfismerking Svansins nær yfir hráefni eins og garn, lopa, álnavöru og prjónaefni, sem og tilbúnar textílvörur úr bómull, ull, höri, unnum sellulósa (viskósa, lyocell og asetati) og gerviefnunum polyester og polyamíð.

Textílvörur og umhverfið
Textíliðnaðurinn veldur ákveðnu umhverfisálagi á öllum stigum framleiðslunnar, allt frá ræktun hráefnisins til lokahnykksins á saumastofunum. Oftar en ekki má rekja skaðann til mikillar notkunar kemískra efna í þessum iðnaði. Þar sem stór hluti textíliðnaðarins er staðsettur í löndum, sem gera minni kröfur á sviði umhverfismála en tíðkast í hinum vestræna heimi, eru efnin sem notuð eru oft og tíðum bæði heilsuspillandi fyrir fólk og afleit fyrir náttúruna. Bómullarrækt er gott dæmi um þetta, þar sem DDT er iðulega notað sem skordýraeitur og fenoxísýru úðað gegn illgresi. Engin nytjajurt er úðuð í jafnmiklum mæli og einmitt bómullin.

Umhverfismerking
Norræna umhverfismerkið Svanurinn var stofnað í þeim tilgangi að að auðvelda þér og öðrum neytendum að finna vörur er hafa sem minnst skaðleg áhrif umhverfið. Kröfur Svansins miðast við allan lífsferil vörunnar/þjónustunnar, frá vöggu til grafar. Það þýðir að áhrif vörunnar eru metin allt frá hráefni til úrgangs, og miðast kröfur Svansins við að lágmarka umhverfisálag vegna vörunnar. Það getur verið flókið mál að meta umhverfisáhrif vara og finna þá umhverfisvænstu. Svanurinn einfaldar málið og auðveldar þér að skapa betri framtíð!

Umhverfiskröfur Svansins
Kröfurnar sem uppfylla þarf til að fá norræna umhverfismerkið á textílvörur taka bæði til framleiðsluferilsins og vörunnar sjálfrar. Framleiðsluferlinum má skipta gróflega í tvennt, í spunavinnu annars vegar og verkun hins vegar.

Spuni: Þegar spunnin er bómull, ull eða hör eru meðal annars gerðar kröfur um að hráefnið sem spunnið er úr sé laust við allar leifar af skaðlegu skordýraeitri og illgresiseyði.

Losun súrefniseyðandi efna við ullarþvott og hörverkun má ekki fara yfir tiltekin viðmiðunarmörk.

Þegar spunnið er úr unnum sellulósa (viskósa, lyocell og acetati) eru einnig gerðar kröfur um takmörkun á losun súrefniseyðandi efna, sem og á zinki og brennisteini, svo dæmi séu nefnd. Þá má ekki bleikja sellulósann með klór. Hins vegar ná kröfurnar ekki til hráefnisins í sellulósanum, þ.e.a.s. til skógarins og trjánna sem hann er upprunalega unninn úr.

Polyester og polyamíðþræðir skulu spunnir án notkunar leysiefna. Losun rokgjarnra, lífrænna efna í framleiðsluferlinu skal skrásett og takmörkuð svo sem kostur er auk þess sem áætlun þarf að liggja fyrir um hvernig hægt er að minnka hana enn frekar.

Verkun: Kemísk efni sem notuð eru við verkun textílvöru mega að hámarki innihalda 1% efna sem teljast hættuleg umhverfinu. Á spuna- og prjónavélar skal eingöngu nota olíur sem eru fullkomlega niðurbrjótanlegar í náttúrunni og þær mega ekki innihalda meira en hálft prósent af fjölhringja-aromatefnum. Sæfiefni (notuð sem rot- og þráavarnarefni og til að varna slþmyndun o.fl.) skulu einnig vera fullkomlega niðurbrjótanleg og mega ekki innihalda efni sem safnast upp í dýrum og plöntum. Þetta gildir líka um önnur efni sem notuð eru við verkunina, svo sem mýkingarefni, löginn sem notaður er til að leggja í bleyti og svo framvegis.

Þess er krafist að tryggt sé að innan við fjórðungur þeirra súrefniseyðandi efna, sem losna á framleiðsluferlinu öllu, nái út í vatnakerfi og sjó. Þá verður einnig að tryggja að sýrustig frárennslis sé innan ákveðinna marka (pH-gildi). Orku- og vatnsnotkun skal skrásett.

Til að Svansmerking fáist verður varan sjálf fullunnin, einnig að uppfylla fjölmörg skilyrði, svo sem um hámarksinnihald, innihald tiltekinna kemískra efna og málma af ýmsu tagi. Takmörkun á kemískum efnum miðar fyrst og fremst að því að draga úr mengun samfara sliti efnanna og í kjölfar þvotta. Þótt leyfilegt sé að nota ákveðna tauliti, sem innihalda málma, þá má það aldrei vera í svo miklum mæli að það geti valdið ofnæmisviðbrögðum hjá neytendum og taka hámarksgildin fyrir einstaka málma mið af því markmiði.

Aðrar kröfur
Til að Svansmerkið fáist, verður varan að þola þvott og þvottaleiðbeiningar skulu fylgja. Þá verða litirnir að vera þvottekta, ljós- og slitþolnir og þola bletti og blettahreinsun. Kröfur um slitþol eru sérstaklega miklar þegar um húsgagnaáklæði er að ræða.
Svansmerkið gerir ætíð þá grundvallarkröfu, að framleiðendur starfi í samræmi við gildandi umhverfis- og vinnulöggjöf framleiðslulandsins.

Fróðleikur....

Um textílframleiðslu og umhverfið:
Heimsframleiðslan á bómull, ull, sellulósa- og gerviefnum nam um það bil 40 milljónum tonna árið 1992. Mest var framleitt af bómull (46%), þá gerviefnum (43%), unninn sellulósi var um það bil 7% af heimsframleiðslunni og 1,6 milljónir tonna af ull fóru í gegnum spunaverksmiðjur heimsins (4%). Heimsframleiðslan af textílefnum jókst um 2,5 milljónir tonna á milli áranna 1987 og 1993, eða um 6%. Mesta aukningin varð í framleiðslu gerviefna. Árið 1992 keyptu Norðurlandabúar 12.000 tonn af bómull og 400 tonn af ull. Meirihluti textílvöru sem keyptur er á Norðurlöndunum er innfluttur.

Hráefnið í þær textílvörur sem við notum kemur úr ýmsum áttum; bómullar- og hörrækt, sauðfjárrækt, olíuvinnslu og skógrækt. Allt hefur þetta áhrif á umhverfið, en með afar mismunandi hætti og í mismiklum mæli. Því er erfitt að setja fram samræmdar, alhliða kröfur sem gilda jafnt um alla flokka hráefnis. Notkun jarðolíu getur haft áhrif á loftslagið og lífríkinu getur staðið ógn af því ef gengið er of nærri skóglendi. Á móti kemur að hlutfallslega fer mjög lítið af olíu- og timburframleiðslu heimsins til textílgerðar.

Í bómullar-, hör- og ullarframleiðslu hefur það sýnt sig að notkun hvers kyns eiturefna er það sem mestum umhverfisáhrifum veldur. Þá krefst bómullarræktin gríðarlegrar vatnsnotkunar, sem getur leitt til þess að grunnvatn verður af skornum skammti og jarðvegur of saltur.

Ein helsta skýringin á þeirri miklu efnamengun sem oft er samfara textíliðnaðinum er sú, að mikið magn ólíkra kemískra efna er notað á öllum stigum framleiðslunnar, til dæmis við sæfingu, þæfingu, spuna og vefnað. Þessi efni bindast ekki í framleiðslunni og fara oftar en ekki út í umhverfið með frárennslinu. Þessi efni geta valdið umhverfinu miklum skaða á þeim svæðum sem þau ná til.

Fleiri kemísk efni, sem bindast framleiðslunni, eru einnig notuð, svo sem litir og ýmis efni önnur sem hafa áhrif á útlit, áferð og endingu hennar. Taulitir innihalda oft og tíðum málma á borð við kopar, króm, blý, kóbalt, nikkel og kadmíum.

Sjá Svansmerkt fyrirtæki á Íslandi, fyrirtæki sem selja Svansmerktar vörur og lesefni um Svaninn hér á Grænum siðum.

Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að fá Svansvottun veitir umboðsaðili Svansins hér á landi Umhverfisstofnun.

Birt:
7. janúar 2008
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Vefnaðarvörur (Textíll) - Svanurinn“, Náttúran.is: 7. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/07/textilvorur-svanurinn/ [Skoðað:3. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: