Dagur hinna villtu blóma er á morgun
Dagur hinna villtu blóma verður er haldinn á morgun sunnudaginn 15. júní árið 2008. Þann dag gefst fólki víðs vegar um landið kostur á að fara í tveggja tíma gönguferð um nágrenni sitt án endurgjalds, og fá leiðsögn um algengustu plöntur sem þar vaxa. Neðst á þessari síðu er tengill inn á fyrri blómadaga, allt frá árinu 2004 þegar hann var fyrst haldinn hér á Íslandi. Þar er hægt að sjá hvar efnt hefur verið til blómaskoðunar á fyrri árum, og hver þátttakan var.
Gönguferðir þessar eru ókeypis fyrir þátttakendur, og ekki þarf að tilkynna þátttöku fyrir fram, heldur aðeins mæta á auglýstum stað á réttum tíma. Hversu víða verður hægt að bjóða upp á plöntuskoðun fer eftir því hversu margir sjálfboðaliðar fást til að veita leiðsögn. Hér með er óskað eftir að væntanlegir leiðsögumenn tilkynni sig í netfangið hkris@ni.is.
Hér að neðan eru upplýsingar um þær plöntuskoðunarferðir vítt og breitt um landið sem fyrirhugaðar eru á degi hinna villtu blóma 2008:
- Vogar. Mæting við Vogatjörn kl. 11. Leiðsögn: Þorvaldur Örn Árnason og Ragnheiður Elísabet Jónsdóttir. Ef ekið er Vogaafleggjarann niður í Voga án þess að taka beygju, er komið að Vogatjörn. Lítt röskuð náttúruperla á náttúruminjaskrá í hjarta þéttbýlisins. Villtur gróður er á bakkanum á þrjá vegu og ýmislegt er úti í tjörninni, gott að vera á stígvélum. Valllendi í grennd og reskigróður, stutt í strandgróðurinn.
- Reykjavík. Elliðaárdalur. Mæting við gamla Rafveituhúsið kl. 13:30. Leiðsögn: Gróa Valgerður Ingimundardóttir.
- Borgarfjörður. Mæting við Hvanneyrarkirkju kl. 10:00. Leiðsögn: Björn Þorsteinsson.
- Hnappadalur. Gengið að Eldborg, mæting við göngumerkið við brúna á Snorrastöðum kl. 14:00. Leiðsögn: Ásta Davíðsdóttir, landvörður í Borgarfjarðarbyggð.
- Snæfellsnesþjóðgarður. Mæting við Rauðhól (suðaustan við Prestahraun og upp með Móðulæk) kl. 14:00. Leiðsögn: Guðrún Lára Pálmadóttir.
- Ísafjörður. Mæting á tjaldstæðinu í Tungudal kl. 13:00. Leiðsögn: Anton Helgason.
- Hólmavík. Mæting á Upplýsingamiðstöðinni á Hólmavík kl. 13:00. Leiðsögn: Hafdís Sturlaugsdóttir og Matthías Lýðsson.
- Akureyri. Krossanesborgir, mæting á bílastæðinu við Lónið kl. 10:00. Leiðsögn: Elín Gunnlaugsdóttir. Takið með hæfilegan skjólfatnað eftir veðri og gott er að hafa stígvél til að komast út í mýrarnar. Greiningarbók og stækkunargler ef til er.
- Eyjafjarðarsveit. Leifsstaðabrúnir norðan Kaupangs. Mæting kl. 10:00 á bílastæði við gamla Vaðlaheiðarveg rétt sunnan vegamóta Leifsstaðavegar og Eyrarlands. Leiðsögn: Hörður Kristinsson.
- Ásbyrgi. Mæting við Gljúfrastofu kl. 14:00. Gönguferð um Ásbyrgi skipulögð af Þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum í samvinnu við Náttúrustofu Norðausturlands og Flóruvini. Leiðsögn: Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir.
- Egilsstaðir, Fljótsdalshéraði. Mæting á bílastæðinu við Selskóg á Egilsstöðum kl. 10:00. Leiðsögn: Skarphéðinn Þórisson.
- Hjaltastaðarþinghá, Fljótsdalshéraði. Mæting á Unaósi kl. 14:00. Leiðsögn: Þorsteinn Bergsson og Soffía Ingvarsdóttir.
- Neskaupstaður. Mæting á bílaplaninu úti í Fólkvangi, hjá vitanum kl. 10:00. Leiðsögn: Guðrún Á. Jónsdóttir.
- Fáskrúðsfjörður. Mæting á tjaldstæðinu á Fáskrúðsfirði kl. 19:00. Leiðsögn: Líneik Anna Sævarsdóttir.
- Kirkjubæjarklaustur. Mæting við Skaftárskála kl. 20:30. Gengið suður með Skaftá í átt að Heimaendaseli. Leiðsögn: Ólafía Jakobsdóttir og Sigurlaug Jónsdóttir.
Auk hinnar hefðbundnu tveggja tíma plöntuskoðunar bjóða Ferðafélag Íslands og Grasagarðurinn í Laugardal upp á dagsferð á fornbílum frá Reykjavík til Laugarvatns og Geysis. Boðið verður upp á plöntuskoðun í tilefni dagsins meðfram gamla konungsveginum milli Laugarvatns og Geysis. Ferðin í heild kostar kr. 8.000 fyrir félagsmenn, en 10.000 fyrir aðra. Fararstjórar eru Ólafur Örn Haraldsson og Eva G. Þorvaldsdóttir. Mæting við Grasagarðinn í Laugardal kl. 9:00. Nánari upplýsingar hér.
Flóruvinir standa fyrir degi hinna villtu blóma, og veita leiðsögn sem sjálfboðaliðar. Ýmsar stofnanir hafa stutt og staðið með flóruvinum að þessum degi á hverjum stað fyrir sig, meðal annarra Grasagarðurinn í Laugardal, Ferðafélag Íslands, Hólaskóli, Landbúnaðarháskóli Íslands, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Náttúrufræðistofnun Íslands,Náttúrufræðistofur landshlutanna og Umhverfisstofnun.
Dagur hinna villtu blóma hefur síðan 2004, þegar Íslendingar bættust í hópinn, verið haldinn á öllum Norðurlöndunum ásamt Færeyjum og Grænlandi.
Birt:
Tilvitnun:
Hörður Kristinsson „Dagur hinna villtu blóma er á morgun“, Náttúran.is: 14. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/14/dagur-hinna-villtu-bloma-er-i-dag/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.