Art Cooley, einn af stofnendum Environmental Defense Fund (EDF), einna helstu umhverfissamtaka Bandaríkjanna, er staddur hér á landi í skoðunar- og kynnisferð ásamt fleiri meðlimum samtakanna. Fréttablaðið ræddi við Cooley um starfsemi sjóðsins og tröllatrú hans á kvótakerfinu.
"Við í Environmental defense-sjóðnum (EDF) vorum frumkvöðlar að því leyti að við vorum meðal fyrstu stofnana sem settum vísindamenn, lögfræðinga og hagfræðinga inn í sama herbergi, í þeim tilgangi að finna lausnir við ákveðnum vandamálum," segir Art Cooley, stofnmeðlimur EDF.
Sjóðurinn var stofnaður í New York árið 1967. Upphaflegur tilgangur samtakanna var að knýja fram bann við notkun meindýraeitursins DDT, sem rannsóknir höfðu sýnt fram á að skaðaði fuglalíf Bandaríkjanna verulega. Samtökunum varð svo vel ágengt með þetta verkefni sitt að fljótlega var tekin sú ákvörðun að færa út kvíarnar svo um munaði.
Í tímans rás hefur sjóðurinn orðið að veigamiklu afli í umhverfisvernd, bæði í Bandaríkjunum og víðar um heim. Skráðir meðlimir samtakanna eru 500.000, og halda samtökin úti skrifstofum víða, meðal annars í Kína og Rússlandi. Um þessar mundir leggur sjóðurinn drög að viðamiklu samstarfi við Indland er varðar hlýnun jarðar og tengd málefni. Ýmis tengd málefni koma til kasta sjóðsins, til að mynda verndun sjávarlífs og almenn heilbrigðismál.
Samstarf við stórfyrirtæki
Cooley segir meðlimi sjóðsins fljótlega hafa gert sér grein fyrir því veigamikla hlutverki sem efnahagsmál gegna í umhverfisvernd. "Ein af aðferðunum sem við notum til að tryggja verndun umhverfisins er að leita eftir samvinnu við fyrirtæki og opinbera starfsmenn. Við höfum unnið með risafyrirtækjum á borð við Walmart, FedEx og McDonalds og það hefur haft afar jákvæðar afleiðingar í för með sér. Það segir sig í raun sjálft að ef stórfyrirtæki eins og WalMart ákveður að huga að því að endurhugsa starfsemi sína, þótt að takmörkuðu leyti sé, þá munu fjöldamörg fyrirtæki fylgja í kjölfarið."