Art Cooley, einn af stofnendum Environmental Defense Fund (EDF), einna helstu umhverfissamtaka Bandaríkjanna, er staddur hér á landi í skoðunar- og kynnisferð ásamt fleiri meðlimum samtakanna. Fréttablaðið ræddi við Cooley um starfsemi sjóðsins og tröllatrú hans á kvótakerfinu.

"Við í Environmental defense-sjóðnum (EDF) vorum frumkvöðlar að því leyti að við vorum meðal fyrstu stofnana sem settum vísindamenn, lögfræðinga og hagfræðinga inn í sama herbergi, í þeim tilgangi að finna lausnir við ákveðnum vandamálum," segir Art Cooley, stofnmeðlimur EDF.

Sjóðurinn var stofnaður í New York árið 1967. Upphaflegur tilgangur samtakanna var að knýja fram bann við notkun meindýraeitursins DDT, sem rannsóknir höfðu sýnt fram á að skaðaði fuglalíf Bandaríkjanna verulega. Samtökunum varð svo vel ágengt með þetta verkefni sitt að fljótlega var tekin sú ákvörðun að færa út kvíarnar svo um munaði.

Í tímans rás hefur sjóðurinn orðið að veigamiklu afli í umhverfisvernd, bæði í Bandaríkjunum og víðar um heim. Skráðir meðlimir samtakanna eru 500.000, og halda samtökin úti skrifstofum víða, meðal annars í Kína og Rússlandi. Um þessar mundir leggur sjóðurinn drög að viðamiklu samstarfi við Indland er varðar hlýnun jarðar og tengd málefni. Ýmis tengd málefni koma til kasta sjóðsins, til að mynda verndun sjávarlífs og almenn heilbrigðismál.

Samstarf við stórfyrirtæki
Cooley segir meðlimi sjóðsins fljótlega hafa gert sér grein fyrir því veigamikla hlutverki sem efnahagsmál gegna í umhverfisvernd. "Ein af aðferðunum sem við notum til að tryggja verndun umhverfisins er að leita eftir samvinnu við fyrirtæki og opinbera starfsmenn. Við höfum unnið með risafyrirtækjum á borð við Walmart, FedEx og McDonalds og það hefur haft afar jákvæðar afleiðingar í för með sér. Það segir sig í raun sjálft að ef stórfyrirtæki eins og WalMart ákveður að huga að því að endurhugsa starfsemi sína, þótt að takmörkuðu leyti sé, þá munu fjöldamörg fyrirtæki fylgja í kjölfarið."

Cooley dregur ekki dul á að samstarf við slík stórfyrirtæki aflar sjóðnum af og til óvinsælda meðal annara umhverfissinna. "Við reynum umfram allt að einbeita okkur að ákveðnum vandamálum sem við teljum brýnt að leysa. Ef við ættum að vega kosti og galla hvers einasta fyrirtækis sem við störfum með kæmum við engu í verk. Ef við erum að berjast gegn gróðurhúsaáhrifum reynum við að fá alla þá sem eru í aðstöðu til að leiða með góðu fordæmi til að vinna með okkur. Einhver annar verður að taka slaginn gegn misnotkun á vinnuafli og slíkum hlutum. Það er erfitt að ná fram skilvirkni ef reynt er að breyta öllu í einu," segir Cooley.

Hlýnun jarðar er að mati Cooleys brýnasta verkefnið sem EDF vinnur að um þessar mundir. "Persónulega hef ég mestan áhuga á náttúruvernd af flestu tagi. Hlýnun jarðar hefur auðvitað áhrif á náttúruna og flest annað og er þess vegna forgangsatriði hjá sjóðnum."

Vill sjá kvótakerfi víða um heim
Cooley og samstarfsmönnum hans var boðið að snæða hádegisverð með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í vikunni. "Við áttum gott spjall um hina ýmsu hluti, meðal annars fiskveiðar og kvótakerfi. EDF vann ötullega að því að afnema lög gegn kvótakerfi í Bandaríkjunum fyrir fjórum árum. Íslendingar hafa að sjálfsögðu verið brautryðjendur í þessum málum og við höfum áhuga á því að sjá kvótakerfi í einhverri mynd festa rætur víðsvegar í heiminum."

Aðspurður segist Cooley ekki hafa gert sér grein fyrir hversu umdeilt kvótakerfið væri hér á landi. "Það getur verið að kerfið henti ekki öllum þjóðum, en það hentar mörgum af hinum stærri þjóðum vel. Það má ekki ryksuga fiskstofnana upp. Þegar litið er til lengri tíma fæst mestur fiskur úr heilbrigðum stofni."

Birt:
30. júní 2008
Höfundur:
Fréttablaðið
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Hlýnun jarðar mest aðkallandi umhverfisvandamálið“, Náttúran.is: 30. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/30/hlynun-jaroar-mest-aokallandi-umhverfisvandamalio/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: