Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur ákveðið að hefja endurskoðun á lögum um náttúruvernd með það fyrir augum að styrkja stöðu náttúruverndar í landinu. Ráðist er í endurskoðunina vegna brýnnar þarfar á að styrkja stöðu náttúrunnar og umhverfissjónarmiða í íslenskum rétti. Kveðið er á um endurskoðun laganna í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og Samfylkingar. Þar er sérstaklega tekið fram að verndarákvæði skuli treyst og almannaréttur tryggður. Umhverfisráðherra segir að staða náttúrunnar í íslenskum rétti hafi verið veik og úr því þurfi að bæta

Skipuð hefur verið nefnd til að annast endurskoðun laganna. Umhverfisráðherra leggur áherslu á að nefndin hafi víðtækt samstarf við hagsmunaaðila, almenning og sveitarfélög í starfi sínu. Þessi aðilar verði skilgreindir við upphaf starfs nefndarinnar og þeim kynnt ferli samráðsins. Nefndinni er ætlað að skila umhverfisráðherra áfangaskýrslu í lok janúar 2010 og endanlegri tillögu að frumvarpi eigi síðar en 31. maí 2010. Í starfi nefndarinnar verður meðal annars tekið á spurningum sem varða friðlýsingar, náttúruverndaráætlun, náttúruminjaskrá, akstur utan vega, líffræðilega fjölbreytni og almannarétt.

Nefndina skipa:
Salvör Jónsdóttir, formaður.
Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands.
Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.
Katrín Theodórsdóttir fulltrúi frjálsra félagasamtaka.

Starfsmenn nefndarinnar eru Sigurður Á Þráinsson, líffræðingur og Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, lögfræðingur.

Birt:
16. nóvember 2009
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Náttúruverndarlög verða endurskoðuð“, Náttúran.is: 16. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/11/16/natturuverndarlog-veroa-endurskoouo/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 18. nóvember 2009

Skilaboð: