Svansmerkt ræstingarþjónusta

Með ræstingarþjónustu er annað hvort átt við utanaðkomandi verktaka (ræstingarfyrirtæki) eða átt er við starfsmenn eða deildir fyrirtækja eða stofnana sem sjá um hreingerningar á eigin húsakynnum.

Við mótum framtíðina
Markmiðið með Svaninum, Norræna umhverfismerkinu, er að auðvelda þér og öðrum neytendum að velja vörur er hafa sem minnst skaðleg áhrif á umhverfið. Kröfur Svansins miðast við allan lífsferil vörunnar/þjónustu, frá vöggu til grafar. Það þýðir að áhrif vörunnar eru metin allt frá hráefni til úrgangs, og miðast kröfur Svansins við að lágmarka umhverfisálag vegna vörunnar. Það getur verið flókið mál að meta umhverfisáhrif vara og finna þá umhverfisvænstu. Svanurinn einfaldar málið og auðveldar þér að skapa betri framtíð!

Lögð er áhersla á eftirfarandi í Svansmerktri ræstingarþjónustu:


  • Lágmarks notkun hreinsiefna
  • Umhverfismerkt hreinsi-og þvottaefni
  • Lágmörkun umhverfisáhrifa vegna ferða og flutninga
  • Háar gæðakröfur sem gerðar eru til hreingerninga

Þitt val hefur áhrif
Það er algengur misskilningur að einstaklingar geti ekki haft áhrif á
umhverfismál. Þú getur stuðlað að minna umhverfisálagi með því að velja umhverfismerkta ræstingar-þjónustu, jafnframt stuðlar þú að sjálfbærri þróun!

Hreingerningarefni
Helstu umhverfisáhrif ræstinga verða við notkun hreinsiefna. Svanurinn gerir kröfu um að þau hreinsiefni sem notuð eru í Svansmerktri ræstingarþjónustu séu hvorki í flokki heilsu- eða umhverfisskaðlegra efna. Auk þessa skal lágmarka notkun hreinsiefna.

Gæði ræstinga
Svanurinn getur ekki sett sértækar kröfur til gæða ræstinga því gæðakröfur eru mjög mismunandi eftir verkefnum. Það er mismikil þörf á ræstingum eftir því hvort um lagerrými, skrifstofur eða sjúkrahús er að ræða og ágangur á vistarverum er afar mismunandi. Ræstingarþörf er t.d. mun meiri í skólum en á einmenningsskrifstofum.
Því setur Svanurinn kröfur um að fyrirtæki geri samning við viðskiptavini um gæði og eftirlitskerfi, þar sem gæðin eru sannreynd.

Úrgangur
Um 85 % af þyngd sorps sem fellur til við ræstingar eru sorppokar. Á Norðurlöndunum eru notuð um 16.000 tonn af plastpokum á ári við ræstingar. Ef öll hreingerningarfyrirtæki á Norðurlöndunum yrðu Svansmerkt mætti draga úr rusli sem jafngilti 400 milljóna tíu gramma plastpoka.

Ræstingarþjónusta og umhverfismál

Á Norðurlöndunum eru árlega þrifnir um 90 milljarðar fermetra.
Það jafngildir því að tíu milljónir 124 fermetra húsa séu þrifin vikulega

Hreingerningarefni
Í ljósi þess hve mikið er þrifið daglega ætti það ekki að koma neinum á óvart að gríðarlegt magn hreingerningarefna fellur til. Á Norðurlöndunum einum eru árlega notuð um 73.000 tonn af hreinsiefnum. Og takist að draga úr notkun þeirra leiðir það sjálfkrafa til minni vatnsnotkunar þar sem hreinsiefni eru þynnt út með vatni.

Ef öll ræstingarfyrirtæki væru Svansmerkt myndi notkun þessara efna dragast saman um 40.000 tonn á ári og einn milljarður vatnslítra sparast. Þessi aðgerð ein og sér myndi draga verulega úr álagi á vatnskerfið en einnig má reikna með að notkun umhverfismerktra hreinsiefna aukist verulega.

Ferðir og flutningar
Ræstingarfyrirtæki nota yfirleitt marga bíla, en bílar hafa sem kunnugt er töluverð umhverfisáhrif. Svanurinn setur því skilyrði varðandi eldsneytisnotkun bíla. Fyrirtækið getur uppfyllt kröfurnar með því að skipuleggja ferðir, kenna starfsmönnum vistakstur, nota aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti eða velja ökutæki sem eru sparneytnari og losa minna af gróðurhúsalofttegundum en önnur ökutæki.

Flutningar eru orkukræfir og stór útgjaldaliður fyrirtækja. Áætlað er að norræn ræstingarfyrirtæki noti um 100 milljónir lítra eldsneytis eingöngu í akstur. Með fjölþættum aðgerðum geta Svansmerkt hreingerningarfyrirtæki dregið úr eldsneytisnotkun um 10-30 %. Á verðlagi dagsins í dag þýðir þetta sparnað upp á 1-2 aura fyrir hvern þrifinn fermetra.

Sjá Svansmerkt fyrirtæki á Íslandi, fyrirtæki sem selja Svansmerktar vörur og lesefni um Svaninn hér á Grænum siðum.

Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að fá Svansvottun veitir umboðsaðili Svansins hér á landi Umhverfisstofnun.

Birt:
7. janúar 2008
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Ræstingarþjónusta - Svanurinn“, Náttúran.is: 7. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/07/raestingarthjonusta-svanurinn/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: