Norrænni ráðherraráðstefnu um skógarmál lauk í dag með undirritun Selfossyfirlýsingarinnar um sjálfbæra skógrækt. Ráðstefnan fór fram á Hótel Selfossi og yfirskrift hennar var ,,Samkeppnishæf skógrækt á Norðurlöndum – Hvernig tökum við á loftslagsbreytingum og kröfu um vatnsgæði?“.
Þetta er í annað sinn sem norrænir skógarmálaráðherrar efna til fundar til að ræða skógarmál. Gestgjafar ráðstefnunnar voru Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ásamt sænska landbúnaðarráðherranum Eskil Erlandsson. Íslendingar munu taka við formennsku í ráðherranefndinni af Svíum á næsta ári.

Samhliða og í beinu framhaldi af ráðherrafundinum efndu Skógrækt ríkisins og Nordgenskog til ráðstefnu undir yfirskriftinni „Norrænir skógar í breyttu veðurfari“. Þar var fluttur fjöldi erinda um skógrækt, veðurfarsbreytingar, nýjar plágur, landgræðslu og fleira. Yfir 100 manns frá öllum Norðurlöndum sátu ráðstefnurnar.

Selfossyfirlýsing skógarmálaráðherra Norðurlandanna, á Selfossi 19. ágúst 2008:

Skógarmálalráðherrar Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs, Svíþjóðar og Álandseyja hafa á ráðstefnu sem haldin var á Selfossi þann 19. ágúst 2008 rætta sjálfbæra skógrækt með áherslu á vatnsgæði og loftslag.

Nýting norrænna skóga hefur haft einstaka þýðingu fyrir norrænu velferðarsamfélögin.

Norrænar þjóðir hafa náið samband við skóginn. Frá örófi alda hefur skógurinn veitt mönnum skjól, hráefni til húsbygginga og annarra mannvirkja, verið orkugjafi og gefið fæðu í formi nytjaplantna og veiðidýra. Á vorum dögum hefur skógurinn verið náttúruauðlind sem stuðlað hefur að hagþróun, en jafnframt er skógurinn mikilvægur til útivistar og fyrir líffræðilega fjölbreytni.

Þetta allt undirstrikar hin mörgu gildi og hlutverk skógarins.

Tvær helstu áskoranir mannkyns á vorum dögum; hnattrænar loftslagsbreytingar og nýting ferskvatnsauðlinda á hnattræna vísu, tengjast náið skóginum.

Norrænir skógarmálaráðherrar vilja undirstrika mikilvægi skógarins til þess að mæta þessum áskorunum.

Norrænir skógarmálaráðherrar fullyrða að hraustir skógar sem framleiða hráefni og þjónustu fyrir skógariðnaðinn, eru búsvæði fjölbreytts lífríkis og vettvangur útivistar og forsenda samkeppnishæfrar skógræktar á Norðurlöndum, og

  • Vilja, að teknu tilliti til líffræðilegs fjölbreytileika og útivistarmöguleika, stuðla að aukinni en sjálfbærri líforkuframleiðslu í norrænum skógum sem jafnframt er mótvægisaðgerð gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum, en einnig að draga úr samkeppni millli ræktunar lífmassa til orkuframleiðslu og til annarra þarfa,
  • Leggja mikla áherslu á verndun og ræktun skóga þar sem tilgangurinn er að tryggja viðgang vistkerfa, líffræðilegrar fjölbreytni, gæði grunnvatns, ásamt því að vinna gegn jarðvegseyðingu og að vernda vatnasvið.
  • Staðhæfa að skóggræðsla eigi að aukast, á grundvelli samevrópska gæðaviðmiða, til að skapa hrausta skóga og þar með að vinna gegn hlýnun af mannavöldum
  • Leggja áherslu á að skógargeirinn taki virkan og uppbyggilegan þátt í umræðum um hlutverk skóga í loftslagssamhengi og að stuðla að því að möguleika skóganna megi nýta til hins þtrasta, til þess að tryggja sjálfbæra nýtingu skóga og allar þær skyldur sem felst í því.
  • Vill styrkja samstarf og miðlun á upplýsingum milli Norðurlandanna
  • Leggur áherslu á þýðingu trjákynbóta, m.a. annars í því augnamiði að bæta aðlögun að loftslagsbreytingum og grípa til aðgerða þegar slíkt telst nauðsynlegt.
  • Að efla verndarskógrækt, þ.m.t. endurheimt rofinna svæða með skógrækt, vernd líffræðilegrar fjölbreytni samfara skógarnytjum og vernd gegn jarðvegseyðingu.
  • Að efla rannsóknir í þessum sviðum öllum. Norrænar skógræktarrannsóknir verði í fararbroddi í heiminum.

Skógur og vatnsgæði.
Vatn er undirstaða lífs á jörðinni og sífellt verður okkur ljósara hvílík lífsgæði felast í aðgengi að hreinu vatni. Skógur hægir á yfirborðsflæði vatns, dregur úr flóðahættu og miðlar hreinu vatni til vatnsbóla. Um leið bætir skógur lífsskilyrði í ám og vötnum með temprandi áhrifum sínum og með því að vera fæðuuppspretta fyrir vatnalífverur. Einhver besta trygging fyrir framleiðslumiklum vatnavistkerfum, minni flóðahættu og háum vatnsgæðum er að vatnasvið séu að verulegu leyti skógi vaxin.

Orkuskógar, hækkandi verð, hnattvæðing.
Þjóðir heims eru farnar að gera sér grein fyrir því að olían er ekki óþjótandi orkulind. Talið er að nú séu fundnar allar stórar olíulindir jarðar, en jafnframt er sífellt aukin eftirspurn eftir olíu meðal þjóða heims og spurningin stóra hve lengi þær endast. Ljóst er að skógur er uppspretta mikillar orku og full ástæða til að ætla að við hækkandi olíuverð og aukna orkuþörf verði horft til skóganna bæði m.t.t. staðbundinnar orkuframleiðslu og framleiðslu á fljótandi eldsneyti. Skógræktargeirinn þarf að mæta þessum þrýstingi á að auka framleiðslu án þess að fórna öðrum gæðum og gildum skóganna.

Skógrækt áfram sem mótvægi – CO2 binding
Um allan heim hafa menn áhyggjur af auknum gróðurhúsaáhrifum og ljóst að sporna verður við losun C02 út í andrúmsloftið. Flest ríki heims hafa þetta að markmiði og áætlanir eru í gangi um mótvægisaðgerðir. Þá er ekki hvað síst horft til skóganna sem binda C02. Stöðva þarf eyðingu þeirra allstaðar þar sem hún á sér stað og jafnframt hvetja til aukinnar ný skógræktar í löndum þar sem möguleikar eru fyrir hendi.

Aðlögun skógræktargeirans að loftslagsbreytungum.
Þrátt fyrir aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum af mannavöldum er líklegt að verulegar breytingar muni engu að síður eiga sér stað miðað við þa aukningu á CO2 í andrúmsloftinu sem þegar er orðin. Má þar t.d. nefna aukna tíðni stormskaða í skógum, aukna tíðni þurrka og skógarelda og aukna skordýrafaraldra sem mögulegar afleiðingar loftslagsbreytinga. Skógræktargeirinn verður að vera í stakk búinn til að takast á við slíkar breytingar en þar öflugt rannsóknastarf mikilvægasta tækið.

Erfðafræðileg aðlögun trjáa.
Tré hafa ótrúlega getu til að aðlagast loftslagsbreytingum. Aðlögun tekur hins vegar nokkurn tíma og hugsanlegt er að breytingar framundan verði örari en þekkst hefur. Þótt allnokkur þekking á aðlögun og erfðafræðilegri fjölbreytni skógartrjáa okkar sé til staðar þarf engu að síður að efla hana verulega því slík þekking er grundvöllur ákvarðanatöku um hvaða trjátegundir og kvæmi sé best að nota í skógrækt við breytilegar aðstæður.

Verndarskógrækt - Hekluskógar.
Skógur bindur jarðveg og heftir fok. Á ýmsum svæðum jarðar þar sem skógur hefur verið ruddur eða hann eyðst á annan máta eru stór uppblásturssvæði sem stofna löndum og byggð í hættu. Ástæða er til að skoða hvort og þá hvernig megi nýta skóg enn frekar til varnaraðgerða á þessum sviðum. Á Íslandi er nú að hefjast verkefni sem miðar að því að koma upp skógi umhverfis Heklu til heftingar ösku og sandfoks þegar til eldgoss kemur. Lærdómur úr því verkefni mun nýtast víðar á Íslandi og vonandi víða um heim.

Áhersla á rannssóknir.
Forsenda árangurs í skógrækt eru rannsóknir. Án þeirra yrði stöðnun og afturför. Norðurlöndin stunda miklar rannsóknir á skógi og eru á margan hátt í fararbroddi annarra þjóða hvað þær varðar. Okkur er mikið í mun að viðhalda þeirri stöðu og efla skógræktarrannsóknir enn frekar.

Myndin er af birki. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
19. ágúst 2008
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Selfossyfirlýsing um sjálfbæra skógrækt“, Náttúran.is: 19. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/19/selfossyfirlysing-um-sjalfbaera-skograekt/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 20. ágúst 2008

Skilaboð: