Hekla má ekki auglýsa „græna bíla“
Neytendastofa hefur úrskurðað að auglýsing Heklu um græna bíla séu villandi og brjóti í bága við lög. Langsótt væri að tala um græna bíla þótt bílaumboðið greiddi kolefnisjöfnun i eitt ár fyrir hvern slíkan bíl.
Neytendastofa hefur því sent eftirfarandi tilmæli til Heklu hf.:
„Að mati Neytendastofu er framsetning auglýsinganna til þess fallin að vera villandi og því ekki í samræmi við ákvæði 6. gr. laga nr. 57/2005. Neytendastofa beinir þeim eindregnu tilmælum til Heklu hf. að taka framvegis tillit til framangreinds í auglýsingum sínum og jafnframt að hafa í huga leiðbeinandi reglur um auglýsingar og umhverfisvernd nr.559/1994.“
Á vef Neytendasamtakanna segir: „Mikilvægur úrskurður um hvort og hvenær fyrirtæki mega auglýsa vörur sínar umhverfisvænar eða grænar.
Neytendastofa hefur úrskurðað að auglýsingar Heklu um græna bíla séu villandi og brjóti í bága við lög. Neytendasamtökin fagna áliti Neytendastofu en í því er tekið undir sjónarmið samtakanna.
Neytendasamtökin töldu að auglýsingar Heklu um græna bíla stæðust ekki lög og að það væri mjög langsótt að tala um græna eða umhverfisvæna bíla þótt bílaumboðið greiddi kolefnisjöfnun í eitt ár fyrir hvern seldan bíl.
Samtökin sendu því erindi til Neytendastofu sem fer með eftirlit með lögum um óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins.
Í áliti Neytendastofu dagsett 1. nóvember 2007 kemur fram að í auglýsingum Heklu sé megin áhersla lögð á að nýir Volkswagen bílar séu „grænir“ og á þann hátt gefið í skyn að þeir séu umhverfisvænir eða hafi jákvæð áhrif á umhverfið. Í áliti Neytendastofu segir orðrétt: „Með aukinni alþjóðavakningu á umhverfisvernd hefur orðið grænn fengið merkinguna umhverfisvænn í hugum flestra. Skv. upplýsingum frá Orðabók Háskóla Íslands felst í hugtakinu grænn m.a. að sú vara sem sögð er vera græn sé umhverfisvæn og hafi jákvæð áhrif á umhverfið.
... Sú skýring að Hekla greiði fyrir kolefnisjöfnun þeirrar mengunar er nýir Volkswagen bílar valda í eitt ár geri þá græna eða umhverfisvæna fær Neytendastofa ekki séð að fái staðist.“
Einnig kemst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að Hekla hafi ekki notað hugtakið kolefnisjöfnun á réttan hátt. Nýir Volkswagen bílar geta ekki verið kolefnisjafnaðir slíkt sé röng þýðing eða misskilningur á þýðingu hugtaksins kolefnisjöfnun. Að mati Neytendastofu getur bíll aldrei verið kolefnisjafnaður heldur er sú mengun sem myndast í andrúmsloftinu með akstri bifreiðar kolefnisjöfnuð t.d. með gróðursetningu.
Neytendasamtökin fagna þessu áliti sem er mjög mikilvægt enda hefur umhverfisvakning síðustu ára orðið til þess að mörg fyrirtæki auglýsa vörur sínar sem umhverfisvænar. Neytendur verða að geta treyst því að slíkar auglýsingar séu réttar.“
Frétt af vef Neytendasamtakanna.
Birt:
8. nóvember 2007
Tilvitnun:
Neytendastofa „Hekla má ekki auglýsa „græna bíla““, Náttúran.is: 8. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/08/hekla-m-ekki-auglsa-grna-bla/ [Skoðað:29. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.