Dþrmætustu auðlindir íslensku þjóðarinnar eru óbeislað hugmyndaflug og frjór hugur. Sú hugmynd liggur til grundvallar kynningunni og sýningunni „Nýjar leiðir í atvinnusköpun á umbrotatímum“.

Ungt fólk í Listaháskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík veit þetta. En það hefur tekið höndum saman um að finna þessum auðlindum farveg á milli ólíkra sviða og listgreina og finna nýjar leiðir til atvinnusköpunar á umbrotatímum.

"Við erum að smíða grundvöll fyrir fólk til að setja hugmyndir sínar á netið svo hægt sé að vinna úr þeim betur hér heima, en hann vantar akkúrat núna vegna efnahagsástands þjóðarinnar," segir Ragnar Már Nikulásson, nemandi í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands. Hann er einn þátttakenda í samstarfsverkefni háskólanna tveggja við að leysa sköpunarkraft úr læðingi og tryggja að góðar hugmyndir geti orðið að veruleika.

"Tilgangurinn er að opna aðgang að hugmyndum og auka með því möguleika á að fólk vinni saman að útfærslu hugmyndanna með framleiðslu í huga. Mikill áhugi er á framhaldsvinnu við hugmyndirnar eftir að samstarfsverkefninu lýkur, og óskandi að það verði að veruleika," segir Ragnar Már, um afrakstur samvinnu nemenda LHÍ og HR, sem kynntur verður í Þjóðleikhúskjallaranum föstudaginn 31. október frá klukkan 13:00 til 17:00. Að kynningu lokinni gefst gestum kostur á að skoða verkefnin betur, skála fyrir Íslandi og fagna framtíðinni, sem er björt þegar horft er til virkjanamöguleika íslensks hugarafls. Klukkan 18:00 tilkynnir dómnefnd hvaða hópur hlýtur verðlaun Klaks, nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins, fyrir besta verkefnið, en alls tóku tólf mismunandi hópar, skipaðir nemendum úr báðum háskólunum, þátt í hugmyndavinnunni.

Birt:
30. október 2008
Höfundur:
þig
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
þig „Björt framtíð“, Náttúran.is: 30. október 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/30/bjort-framtio/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: