Reglugerð verður sett um mengun vegna brennisteinsvetnis
Vegna umfjöllunar fjölmiðla um mælingar á brennisteinsvetnismengun í Hveragerði vill umhverfisráðuneytið taka fram að nú er unnið að gerð reglugerðar um losun brennisteinsvetnis. Vegna ríkra hagsmuna íbúa á Suðvesturhorni landsins hefur Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra lagt áherslu á að vinnu við gerð reglugerðarinnar verði flýtt eins og kostur er.
Markmið með gerð reglugerðarinnar eru þrenns konar:
- Tryggja viðunandi mælingar á styrk brennisteinsvetni í andrúmsloftinu og miðla upplýsingum um niðurstöður slíkra mælinga til almennings.
- Setja viðmiðunarmörk fyrir brennisteinsvetni í andrúmslofti sem miða að því að fyrirbyggja skaðleg áhrif á heilbrigði manna og umhverfi.
- Tryggja loftgæði og heilsusamlegt umhverfi.
Nú eru vinnuverndarmörk einu mörkin sem sett eru fyrir losun brennisteinsvetnis hér á landi. Eins og Umhverfisstofnun greinir frá á heimasíðu sinni þá telur stofnunin að vinnuverndarmörk séu ekki nothæfur mælikvarði til að tryggja að almenningur verði ekki fyrir neikvæðum áhrifum af völdum þessarar mengunar.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Reglugerð verður sett um mengun vegna brennisteinsvetnis“, Náttúran.is: 17. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/11/17/reglugero-verour-sett-um-mengun-vegna-brennisteins/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.