Mosinn lengi að jafna sig
Það mun taka áratugi fyrir mosa á Hellisheiði að verða samur eftir mengun vegna jarðgufuvirkjana á heiðinni. Samkvæmt nýjum rannsóknum virðist eyðileggingin eiga rætur að rekja til prófunar á borholunum, en mosagróðurinn er nú að jafna sig hægt en örugglega.
Fyrir fjórum árum kom í ljós að að mosi hafði drepist á stóru svæði við Hellisheiðarvirkjun. Töluverðar líkur eru á að sökudólgurinn sé brennisteinsvetni, að mati Magneu Magnúsdóttur sem hefur unnið umfangsmikið rannsóknarstarf á svæðinu. Skemmdirnar hafi fyrst og fremst orðið þegar borholurnar voru prófaðar í upphafi og benda niðurstöður rannsókna hennar til þess að gróðurinn sé að jafna sig.
„Eins og staðan er í dag virðist þetta mjög slæmt við fyrstu sýn, en þegar betur er að gáð sér maður lifandi brúska, græna brúska inn á milli, litla sprota. Þeir virðast vera að aukast. Ef að skemmdin nær ekki lengra niður en 3-4 sentimetra virðist mosinn geta vaxið aftur og mynda nývöxt.“
Hún segir að það muni taka áratugi fyrir svæðið að verða samt aftur. Til þess að ýta undir vöxt mosans hefur Magnea gert tilraunir með að blanda honum við súrmjólk, setja í blandara og hella yfir jarðveginn og mosinn tók vel við sér.
„Þannig að það er ýmislegt hægt að gera. En það þarf að gefa þessu tíma, þetta tekur allt saman tíma, mosinn vex mjög hægt. Þannig að: Gefum þessu tíma.“
Ljósmynd: Skjáskot úr frét Ríkissjónvarpsins. Magnea Magnúsdóttir við rannsóknir á Hellisheiði.
Birt:
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „ Mosinn lengi að jafna sig“, Náttúran.is: 24. júní 2012 URL: http://nature.is/d/2012/06/24/mosinn-lengi-ad-jafna-sig/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.