Á fundi hjá nefnd umhverfisráðherra í gær rökstuddi talsmaður neytenda þá afstöðu að framleiðendur og þar með endanotendur ættu að bera kostnað af förgun óumbeðins pappírs - en ekki húseigendur. Þá var gagnrýnt að neytendur ættu ekki fulltrúa í nefndinni.

Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, mætti í gær á fund nefndar umhverfisráðherra um aðgerðir til þess að draga úr úrgangi vegna óumbeðins prentpappírs.

Húseigendur beri ekki kostnað af pappírnum, sjálfir eða með sköttum

Í upphafi málefnalegrar umræðu og upplýsingaskipta rakti talsmaður neytenda væntingar sínar um samkomulag í nefnd á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) um rétt neytenda til þess að afþakka fjölpóst eða fríblöð eða hvort tveggja - þ.m.t. fjölpóst í fríblöðum, sbr. nánari umfjöllun hér. Tækist slíkt samkomulag yrði vandi þessarar nefndar væntanlega minni en vissulega brýnt að taka á honum.. Efnislega hafði talsmaður neytenda það helst fram að færa að ekki væri réttlátt að neytendur bæru kostnað af fríblöðum og fjölpósti sem þeim bærist - jafnvel þó að þeir hefðu ekki nýtt sér rétt sinn til þess að afþakka þær sendingar sem væntanlega verður tryggður í nefndu samkomulagi. Taldi hann það bæði eiga við um raunkostnað neytenda (húseigenda) við umsýslu pappírs og förgun hans nú og ekki síður varðandi hugmyndir um að leggja þann kostnað á húseigendur með sorphirðusköttum; eðlilegra væri að framleiðendur bæru þennan kostnað framar í virðiskeðjunni, eins og segja má, en þá bera endanotendur vörunnar kostnaðinn á endanum.

„Polluter Pays Principle“
Benti talsmaður neytenda á að afstaða hans virtist í samræmi við umhverfissjónarmið - eins og nefndin væri best til þess fallin að leggja mat á. Vísaði talsmaður neytenda þó til þess að almenn regla í umhverfisrétti væri að sá sem mengaði ætti að borga fyrir úrbætur (e. Polluter Pays Principle).

Gagnrýnt að neytendur eigi ekki fulltrúa í nefndinni
Talsmaður neytenda hefur áður hrósað umhverfisráðuneyti o.fl. ráðuneytum fyrir að viðhafa gott samráð við fulltrúa neytenda um hagsmuni þeirra áður en málum er ráðið til lykta. Á fundinum fann talsmaður neytenda hins vegar að því að enginn fulltrúi neytenda sæti í sjálfri nefndinni sem er skipuð 9 fulltrúum, þar af þremur frá hagsmunasamtökum atvinnurekenda.

Sem dæmi má nefna að í nefnd PFS sitja tveir fulltrúar neytenda, þ.e. talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, og formaður Neytendasamtakanna, Jóhannes Gunnarsson
Birt:
28. mars 2008
Höfundur:
Gísli Tryggvason
Tilvitnun:
Gísli Tryggvason „Húseigendur beri ekki kostnað af óumbeðnum pappír“, Náttúran.is: 28. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/28/huseigendur-beri-ekki-kostnao-af-oumbeonum-pappir/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 29. mars 2008

Skilaboð: