Börn á leikskólanum Bakka í Grafarvogi hafa tekið fjöruna fyrir neðan Staðarhverfið í fóstur. Þau afla gagna um fjöruna fyrir mengunarvarnir Umhverfis- og samgöngusviðs. Heilbrigðisfulltrúar eru leikskólanum innan handar vegna athugana og mælinga í fjörunni.

Leikskólinn Bakki, Umhverfis- og samgöngusvið og Náttúruskóli Reykjavíkur hafa einnig undirritað samstarfssamning um þetta verkefni. Vonir standa til að fleiri grunnskólar og leiksólar taki þátt í verkefnum sem þessum.

Umhverfis- og samgöngusvið er ennfremur í samstarfi við Langholtsskóla en nemendur þar hafa tekið fjöruna í Laugarnesi í fóstur. 4. bekkingar fara mánaðarlega í fjöruna og tína upp það rusl sem þar er að finna, reyna að meta uppruna þess og kanna hvort ummerki sjáist um mengun í sjónum: brák eða froða. Þau skoða auk þess sjávardýr og plöntur og mæla hitastig sjávar. Í lok árs fá heilbrigðisfulltrúar upplýsingarnar sem krakkarnir hafa safnað til að vinna úr.

Fjörur eru mjög spennandi vettvangur útikennslu og líklega eru allar aðgengilegar fjörur borgarinnar nýttar vel til skólastarfs. Næsta kennaranámskeið Náttúruskólans um reykvískar fjörur - í samstarfi við Mengunarvarnir Umhverfissviðs Reykjavíkur og Sjávardýrasafn Fjölskyldu- og húsdýragarðsins er 12. mars.

Frekari uppl. veitir Helena Óladóttir hjá Náttúruskólanum (411-8500)

Myndin er tekin í fjöruferð þar sem krabbar vöktu sérstaka athygli Daníels Tryggva 6 ára. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir. 

Birt:
28. febrúar 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Skólabörn taka fjörur í fóstur“, Náttúran.is: 28. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/28/skolaborn-taka-fjorur-i-fostur/ [Skoðað:24. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: