Skólabörn taka fjörur í fóstur
Börn á leikskólanum Bakka í Grafarvogi hafa tekið fjöruna fyrir neðan Staðarhverfið í fóstur. Þau afla gagna um fjöruna fyrir mengunarvarnir Umhverfis- og samgöngusviðs. Heilbrigðisfulltrúar eru leikskólanum innan handar vegna athugana og mælinga í fjörunni.
Leikskólinn Bakki, Umhverfis- og samgöngusvið og Náttúruskóli Reykjavíkur hafa einnig undirritað samstarfssamning um þetta verkefni. Vonir standa til að fleiri grunnskólar og leiksólar taki þátt í verkefnum sem þessum.
Umhverfis- og samgöngusvið er ennfremur í samstarfi við Langholtsskóla en nemendur þar hafa tekið fjöruna í Laugarnesi í fóstur. 4. bekkingar fara mánaðarlega í fjöruna og tína upp það rusl sem þar er að finna, reyna að meta uppruna þess og kanna hvort ummerki sjáist um mengun í sjónum: brák eða froða. Þau skoða auk þess sjávardýr og plöntur og mæla hitastig sjávar. Í lok árs fá heilbrigðisfulltrúar upplýsingarnar sem krakkarnir hafa safnað til að vinna úr.
Frekari uppl. veitir Helena Óladóttir hjá Náttúruskólanum (411-8500)
Myndin er tekin í fjöruferð þar sem krabbar vöktu sérstaka athygli Daníels Tryggva 6 ára. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Skólabörn taka fjörur í fóstur“, Náttúran.is: 28. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/28/skolaborn-taka-fjorur-i-fostur/ [Skoðað:24. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.