Hvað eiga fyrirtækið Skólamatur, sem býr til matarmiklar og bragðgóðar pítsur skv. eigin vefsíðu, og trésmiðjan Víkurás sameiginlegt? Jú, að hafa auglýst að þau styðji Samtök atvinnulífsins í baráttu við umhverfisráðherra um svokallaðar Suðvesturlínur, fyrirbrigði sem umhverfisráðherra ákvað nýlega að Skipulagsstofnun þyrfti að endurskoða úrskurð sinn um að línurnar þyrfti ekki að meta með tengdum framkvæmdum, svo sem orkuöflun. Skipulagsstofnun hefur svo endurskoðað úrskurðinn og komist að sömu niðurstöðu um að ekki þurfi að meta með öðrum framkvæmdum. Málið verður örugglega kært til umhverfisráðherra, segja Náttúruverndarsamtök Íslands, svo að "baráttan" getur eflaust haldið áfram.

Þessi fyrirtæki eru í hópi fjölmargra sem hafa auglýst á undanförnum vikum. Ég hygg að þau séu flest á Suðurnesjum. Þar sem ég á fremur sjaldan leið til Suðurnesja hef ég ekki lagt mig sérstaklega eftir því að taka eftir því hvaða fyrirtæki þetta eru svo að ég gæti beint mögulegum viðskiptum til annarra fyrirtækja. En ég komst ekki hjá því að taka eftir því að Skólamatur væri eitt af þessum fyrirtækjum; mér fannst það svo furðulegt að fyrirtæki sem býr til mat handa skólum á Suðurnesjum og nokkrum skólum í Kópavogi og Reykjavík skuli hafa það áhugamál að styðja "baráttu" við umhverfisráðherra. Mér finnst það eiginlega furðufrétt!

Birt:
2. nóvember 2009
Tilvitnun:
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson „Furðufrétt - Skólamatur í baráttu við umhverfisráðherra“, Náttúran.is: 2. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/11/02/furourfrett-skolamatur-i-barattu-vio-umhverfisraoh/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: