Hún er 1. nóvember og átti að vera messudagur allra þeirra sannheilögu manna, sem ekki höfðu fengið sinn sérstaka dag í kirkjuárinu. Daginn eftir er svo allrasálnamessa. Þá átti að biðja fyrir sálum þeirra fátæklinga, sem ekki höfðu haft nein efni á því að gefa svo mikið fé til kirkna, að prestar syngju sérstaka sálumessu fyrir þeim til að stytta dvölina í hreinsunareldinum. Það er því greinilegt, að fyrstu tveir dagar nóvembermánaðar voru í katólskum sið einkum helgaðir aumum og fátækum.

Í fornum bókum íslenskum er allraheilagramessa mjög oft getið, og má af því ráða, að hún hefur verið stórhátíð og mikill viðmiðunardagur. Til dæmis um það hve sérstakur hátíðisdagur erfiðismanna hún hefur verið, er ákvæði frá því um 1200 í máldaga eða reglugerð fyrir ferju á Ölfusá hjá Kaldaðarnesi. Þar eru m.a. tilgreindir þrír einir dagar á ári, sem ferjumaður er ekki skildugur að sinna starfi sínu. Það er páskadagur, vígsludagur sóknarkirkju hans og allraheilagramessudagur. Auk þess erum það stuttort ákvæði í þjóðveldislögnunum, að fyrir þann dag skyldu hinir efnaðri menn gefa hjúum sínum og öðrum fátækum ríflega af mat.
Það er því harla sennilegt, að um það hafi orðið samkomulag milli kirkjuyfirvalda og almúga að færa vetrarfagnaðinn fram til þessara verndardaga hinna fátæku. Þá var sláturtíð líka án nokkurs vafa lokið, jafnvel þótt hún hæfist ekki fyrr en um það leyti, því að þá væru dilkar vænstir til frálags.

Þessi tilgáta væri þó varla frambærileg, ef viss arftaki þessa fagnaðar virtist ekki hafa verið enn á kreiki á 19. Öld. Þar er átt við svokallaða sviðamessu, sem að flestra sögn átti sinn stað á allraheilagamessu. Yngri sagnir geta reyndar einnig um hana á fyrsta vetrardegi. Það gast verið hentugri dagur, eftir að sláturtíð hófst fyrr. En þá hefur öll bannhelgi á fyrsta vetrardegi verið löngu gleymd.

Nóvember heitir hjá Guðbrandi Þorlákssyni ríðtíðarmánuður. Þetta nafn hefur vafist nokkuð fyrir mönnum ogsumir viljað breyta því í hríðtíðarmánuð með skírskotun til veðurfarsins. En ríðtíð eða riðtíð getur annars bæði merkt fengitími eða hrygningartími. Mun þá átt við hrygningartíma silunga fremur en fengitíma sauðfjár, enda er nefndur riðfiskur í mánaðarvísu um nóvember í því sama almanaki.

Birt:
1. nóvember 2014
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Allraheilagramessa“, Náttúran.is: 1. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/allraheilagramessa/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 15. nóvember 2014

Skilaboð: