Molta stórhuga
Molta ehf. í Eyjarfjarðarsveit hyggst festa kaup á moltugerðarverksmiðju sem í fyrsta áfanga mun framleiða 4.500 tonn af jarðvegsbæti (moltu) úr 9.000 tonnum af lífrænum úrgangi á ársgrundvelli. Áætlað er að árið 2011, í þriðja áfanga, verði framleiðslan komin í 11.000 tonn úr 20.700 tonnum af lífrænum úrgangi. Það munu vera samkvæmt útreikningum um 91% af tilfallandi lífrænum úrgangi frá bæði fyrirtækjum og heimilum á svæðinu. Verið er að kanna hagkvæmni þess að safna lífrænum úrgangi frá heimilum, sem væri þá þarft frumkvöðlastarf sem að fleirri sveitarfélög gætu tekið sér til fyrirmyndar.
Molta ehf. kannar ennfremur fþsileika þess að reisa lífmassaverksmiðju sem framleiðir orku úr lífræna úrganginum. Afurðin yrði metan sem bæði væri hægt að nota sem eldsneyti á bifreiðar og einnig er hægt að framleiða rafmagn úr lífmassanum. Metangasið myndi nægja til að knýja 3.500 bíla á ári.
Evrópusambandið hefur gefið út tilskipun um að sveitarfélög á landinu öllu þurfi að hafa dregið úr urðun lífræns úrgangs á árinu 2009 sem samsvarar 75% frá viðmiðunarárinu 1995. Árið 2013 þarf hlutfallið að vera komið niður í 50% og 2020 í 30%.Hagrænir hvatar hafa því komið hugmyndinni að verksmiðjunni á það raunveruleikasvið sem hún er í dag.
Kyoto-losunarkvótavirði framleiðslunnar yrði þá væntanlega 70.000 tonn sem að einnig er seljanleg afurð nú á síðustu og gróðurhúsa-lofttegunda-ríkustu dögum.
Níu sveitarfélög við Eyjafjörð og sjö fyrirtæki, þ.e.: Norðlenska, Samherji, Brim, Gámaþjónustan, Kjarnafæði, B. Jensen og Sagaplast eru hluthafar í Moltu ehf.
Myndin er af þremur ungum salatplöntum, í góðri mold. Molta eykur næringargildi gróðurmoldar og grósku plantna. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Molta stórhuga“, Náttúran.is: 27. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/27/molta-strhuga/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.