Ómar fékk heiðursverðlaun Pokasjóðs
Fimmtíu milljónum króna var í gær úthlutað úr Pokasjóði. Alls 55 verkefni á sviði umhverfismála, menningar, mannúðar, íþrótta og útivistar fengu úthlutað úr sjóðnum að þessu sinni. Eftir úthlutunina í gær hefur einum milljarði króna nú verið úthlutað úr sjóðnum frá því hann tók til starfa árið 1995.
Hæsta styrkinn, fimm milljónir króna, hlutu Útivist og Ferðafélag Íslands til öskuhreinsunar í Þórsmörk eftir eldgos í vor. Vímulaus æska hlaut fjögurra milljóna styrk til að halda sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn. UMFÍ og Landgræðslufélag Biskupstungna fengu þrjár milljónir hvort, til undirbúnings hreinsunarátaks og uppgræðslu á Haukadalsheiði. Meðal annarra verkefna sem fengu háa styrki voru framkvæmdir í Esjuhlíðum, gerð heimildarmyndar um Gjástykki og sumarbúðir fatlaðra á Laugarvatni. Þá fékk Samhjálp hálfa milljón króna til að kaupa mat handa skjólstæðingum sínum.
Ómari Ragnarssyni voru veitt Umhverfisverðlaun UMFÍ og Pokasjóðs fyrir óeigingjarnt og ötult starf í þágu íslenskrar náttúru. Hann tók við verðlaununum á Kaffi Nauthól í Nauthólsvík, þar sem úthlutunin fór einnig fram.
Það eru 160 verslanir á Íslandi sem standa að Pokasjóði, en hann fær allar tekjur sínar af sölu plastpoka í verslununum.
Birt:
Tilvitnun:
þeb „Ómar fékk heiðursverðlaun Pokasjóðs“, Náttúran.is: 16. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/16/omar-fekk-heidursverdlaun-pokasjods/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.