Forvarnaverkefnið Stillum hitann hóflega hlaut á dögunum viðkenningu af hálfu EuroSafe samtakanna fyrir vel útfærða forvarnarherferð. Markmið þessa samstarfsverkefnis Orkuveitu Reykjavíkur og Sjóvá-Forvarnahússins er að draga úr brunaslysum af völdum heits vatns í heimahúsum. EuroSafe eru Evrópsku forvarnasamtökin, sem eiga meðal annars samstarf við Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Alþjóða heilbrigðismálastofnunina, WHO.
Á ráðstefnu EuroSafe í París nú á dögunum þótti Stillum hitann hóflega vera herferð sem uppfyllti allar kröfur um góð verkefni sem líkleg væru til að skila árangri. Herferðin var unnin í nánu samstarfi Orkuveitu Reykjavíkur, Sjóvá-Forvarnahússins og Landspítala Háskólasjúkrahúss. Vakti hún talsverða athygli hér á landi þegar henni var hleypt af stokkunum í apríl 2007. Sérstaklega hefur vefurinn www.stillumhitann.is vakið athygli sem gott upplýsingatæki um viðfangsefni og markmið átaksins.

Átakið miðar ekki einungis að aukinni meðvitund almennings heldur ekki síður að aukinni meðvitund fagfólks og eftirlitsaðila með því að góð vinnubrögð séu viðhöfð, ekki síst við byggingu ný s húsnæðis. Þá hafa seljendur búnaðar boðið upp á viðeigandi lausnir og námskeið eru haldin fyrir iðnaðarmenn og annað fagfólk í samstarfi við Impru. Hafa þau verið prýðilega sótt.
Stillum hitann hóflega er langtímaverkefni og verður reglulega fylgst með árangri þess á næstu misserum og árum. Hluti af verkefninu fólst einnig í að endurbæta slysaskráningu. Viðfangsefnið verður með því sýnilegra og árangur verkefnisins verður mælanlegur.

Birt:
16. október 2008
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Stillum hitann átakið hlýtur alþjóðlega viðurkenningu“, Náttúran.is: 16. október 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/16/stillum-hitann-atakio-hlytur-althjoolega-viourkenn/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: