„Strætó er visthæfur og góður samgöngukostur og standa vonir borgarinnar til að verkefnið um námsmannakortin verði þáttur í því að gera almenningssamgöngur að kröftugum ferðamáta til frambúðar,“ segir Gísli Marteinn Baldursson formaður umhverfis- og samgönguráðs en borgarráð samþykkti nýlega að fella áfram niður gjald í strætó fyrir reykvíska framhalds- og háskólanemendur.

Græna skrefið „Miklu betri strætó“ tókst afar vel skólaárið 2007-2008 en skrefið fólst meðal annars í námsmannakorti sem veitti framhaldskólanemendum frítt í Strætó. Milljón farþegar bættust við hóp viðskiptavina Strætó og sögðust 80% námsmanna nota vagnana oftar vegna kortanna. Einnig hefur komið fram að margir nemendur frestuðu bílakaupum.

„Tilraunin gekk svo vel að það var einboðið að halda áfram,“ segir Gísli Marteinn eftir að borgarráð samþykkti í liðinni viku að niðurgreiða í strætó fyrir næsta skólaár. Kostnaðurinn er 270 milljónir króna. „Borgin sparar á þessu verkefni ef langtímamarkmiðið er haft í huga,“ segir Gísli Marteinn og telur það betra fyrir borgina ef íbúar geti lagt stund á margskonar ferðavenjur. „Við viljum skapa borg sem gerir öllum samgöngumátum jafn hátt undir höfði,“ segir hann.

Gísli bendir á að öflugar almenningssamgöngur létti á umferð einkabíla, dragi úr mengun og þörf á dýrum mannvirkjum undir bifreiðar. Hann segir að ímynd strætó hafi gjörbreyst eftir að námsmannakortin komu til sögunnar. „Haustið 2007 tóku að birtast jákvæðar fréttir af strætó, fréttir bárust af fullum vögnum af ungu og frísku fólki,“ segir hann.
Birt:
7. júlí 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Námsmenn draga úr mengun með strætóferðum “, Náttúran.is: 7. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/07/namsmenn-draga-ur-mengun-meo-straetoferoum/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: