40% ökumanna á Laugaveginnum í miðborg Reykjavíkur keyra þar í gegn án erindis eða til að sækja vinnu. Tæplega annar hver bílstjóri (45%) sem keyrir Laugaveginn í miðborg Reykjavíkur á erindi í verslun, á veitingastað eða leitar eftir annarri þjónustu þar. Aðrir ökumenn fara þar um til að njóta mannlífs, skoða í glugga eða eiga beinlínis heima við götuna. 1.245 voru spurðir.

Þetta kemur fram í ferðavenjukönnun sem gerð var á vegum Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar þar sem ökumenn voru spurðir „Hvert er erindi þitt á Laugaveginn í dag?“ Framkvæmdin var á þann veg að spurt var fyrir framan bílastæðahúsið Stjörnutorg og að gatnamótum Barónsstígs fimmtudaginn 20. ágúst milli klukkan 13.00-17.00.

Nýlega var önnur ferðavenjukönnun gerð, á vegum samgönguskrifstofu sviðsins, þar sem vegfarendur voru taldir og þar kom meðal annars fram að hlutfall bifreiða á fimmtudegi miðað við gangandi og hjólandi var tæplega 30% á Laugveginum. Seinni könnunin sýnir nú að 45% þeirra eigi þar viðskipti.

Tilefni þessarar könnunar er tilraun sem gerð verður 5. september um að loka Laugaveginum dagspart í miðborginni fyrir bifreiðum og gefa gangandi vegfarendum kost á að leggja alla götuna undir sig.

Lista- og skemmtidagskrá hefur einnig verið skipulögð af þessu tilefni, laugardaginn fimmta milli kl. 14.00 og 17.00 þar sem fram mun koma tónlistarfólk og aðrir listamenn. Dagskráin verður kynnt innan tíðar.

Birt:
2. september 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Annar hver bílstjóri á Laugaveginum á erindi “, Náttúran.is: 2. september 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/02/annar-hver-bilstjori-laugaveginum-erindi/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: