Fyrsti aðalfundur Samtaka lífrænna neytenda verður haldinn laugardaginn 14. apríl, kl. 14:00 - 17:00, í Reykjavíkurakademíunni, Hringbraut 121, 101 Reykjavík (JL húsinu). Fundurinn er öllum opinn. Þeir sem ekki hafa þegar skráð sig í samtökin munu geta gert það á staðnum en einnig er hægt að skrá sig á heimasíðu samtakanna www.lifraen.is.

Á dagskrá verða meðal annars stofnsamþykktir, bornar fram til formlegrar samþykktar, en þær má finna á vef samtakanna. Skýrsla um mótun stefnu í lífrænni ræktun verður kynnt og afhent Skúla Helgasyni, frumkvæðismanni og formanni nefndar um eflingu græna hagkerfisins. Þá mun Svala Georgsdóttir, úr starfshópi samtakanna Fræðsla og kynningar, formlega taka við embætti fulltrúa framkvæmdarnefndar af Oddnýju Önnu Björnsdóttur, hvatamanni að stofnun samtakanna, en hún baðst lausnar frá því embætti fyrr á þessu ári en mun sitja áfram í framkvæmdanefnd sem varafulltrúi. Í lok fundar mun gestafyrirlesarinn Trine Krebs halda fróðlegt og áhugavert erindi um lífrænan landbúnað í Danmörku en hún hefur víðtæka reynslu og þekkingu á lífrænum landbúnaði þar í landi. Hún er frumkvöðull og hefur haldið fjölda viðburða og fyrirlestra sem tengjast  ánægjunni af góðum mat og góðu hráefni sem á uppruna sinn að rekja til leyndardóma moldarinnar.

Dagskrá

  • 13:30 - Húsið opnar
  • 14:00 - Inngangsorð: Oddný Anna Björnsdóttir, fráfarandi fulltrúi framkvæmdanefndar
  • 14:10 - Kjör fundarstjóra og ritara
  • 14:15 - Skýrsla framkvæmdanefndar kynnt: Svala Georgsdóttir, fulltrúi framkvæmdanefndar
  • 14:30 - Reikningar liðins árs lagðir fram: Elín Inga Ólafsdóttir, gjaldkeri
  • 14:40 - Umræða um skýrslu framkvæmdanefndar og reikninga
  • 15:00 - Stofnsamþykktir bornar fram til formlegrar samþykktar
  • 15:15 - Skýrsla um mótun stefnu í lífrænum landbúnaði kynnt og afhent Skúla Helgasyni: Örn Haraldsson, fulltrúi starfshópsins Opinber stefnumótun
  • 15:45 - Erindi Trine Krebs um lífrænan landbúnað í Danmörku
  • 16:30 - Umræður um erindi Trine
  • 17:00 - Fundi slitið

Tilgangur samtakanna er að stuðla að aukinni framleiðslu og neyslu vottaðra lífrænna vara á Íslandi með velferð almennings, búfjár og verndun umhverfisins að leiðarljósi.

Markmið samtakanna er að efla miðlun upplýsinga um lífrænar afurðir og framleiðslu þeirra, hvetja til aukinnar neyslu á vottuðum lífrænum vörum, vekja athygli á kostum lífrænna aðferða og nauðsyn bættrar meðferðar búfjár, veita markaðinum aðhald um bættar merkingar og aukið framboð lífrænna afurða, og stuðla þannig að heilbrigðum lífsstíl og heilnæmu umhverfi.

Sjá Facebooksíðu Samtaka lífrænna neytenda.

Sjá viðurðinn á Facebook.

Birt:
12. apríl 2012
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Aðalfundur Samtaka lífrænna neytenda“, Náttúran.is: 12. apríl 2012 URL: http://nature.is/d/2012/04/04/adalfundur-samtaka-lifraenna-neytenda/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 4. apríl 2012
breytt: 12. apríl 2012

Skilaboð: