Villt náttúra geymir margar nytja- og lækningajurtir sem eru aldrei betri en á þessum árstíma þegar þær eru í sem örustum vexti. Ingólfur Guðnason garðyrkjufræðingur í Engi í Biskupstungum er fróður um íslensku flóruna.

"Íslensku grösin eru mörg hver þrungin af bæti- og steinefnum, einkum snemma sumars," segir Ingólfur, sem hefur kynnt sér nytjajurtir í íslenskri náttúru. "Margt af því sem vex við fætur fólks uppi í sveit og við sumarbústaðinn er upplagt á borðið, bæði til átu og drykkjar," heldur hann áfram og tekur njóla, túnsúru, fíflalauf og hvönn sem dæmi um heppilegar jurtir í salatskálina. "Túnsúran er ein þeirra plantna sem fólk beið eftir á vorin áður fyrr. Njólinn var líka tekinn snemma og fíflalaufin eru ágæt á þessum tíma áður en remman kemur í þau, eins og líka ný sprottin hvannablöð. Síðan eru birki, maríustakkur og ljónslappi góð í jurtaseyði um þetta leyti og þóttu holl og styrkjandi eftir veturinn. Skarfakálið er þekkt C-vítamínauðug fjörujurt, bragðið er sterkt og minnir á piparrót. Fjallagrös, söl og ætihvönn eru þó þrjár algengustu tegundirnar sem allir notuðu. Þær þykja með afbrigðum hollar. Hvannarótin var ein mikilvægasta nytjajurtin. Hún var tuggin hrá, hún var steikt og hún var soðin í mjólk."

Te- og lækningajurtirnar eru kröftugastar í kringum Jónsmessuna að sögn Ingólfs og telur hann upp blóðberg, einiber, birki, vallhumal, ljónslappa, maríustakk, baldursbrá, mjaðjurt, aðalbláberjalauf og rjúpnalauf; þekktar drykkjarjurtir bæði vegna bragðsins og hollustunnar. "Þær er kjörið að þurrka," segir hann. "Maður verður bara að gæta þess að ganga ekki nærri plöntunum heldur umgangast þær með virðingu og tína hóflega á hverjum stað og gott er að hafa skæri með sér við söfnunina."

Ingólfur segir kalt vatn verða enn meira svalandi ef bætt sé út í það bragðmiklum jurtum, súru, birki, skarfakáli eða ferskri myntu úr garðinum. "Fersk blöðin eru látin standa í köldu vatni um stund," lýsir hann. "Þau gefa frískandi keim og einnig steinefni, ekki spillir sítrónu- eða súraldinsneið með." Hann kann líka að búa til bragðsterkari kaldan drykk úr birkilaufi og í lokin koma leiðbeiningar um gerð hans. "Maður safnar slatta af ungu og fersku laufi, fyllir pott með því og hellir sjóðandi vatni yfir. Þetta er látið standa yfir nótt í ísskáp. Eftir það er laufið síað frá og svo má bæta hunangi eða sykri út í. Þetta er hægt að geyma í ísskáp í nokkra daga og þá er fólk komið með næringarríkan og fínan íslenskan svaladrykk."

Efri myndin er af ljónslappa en sú neðri af maríustakki. Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
8. júlí 2009
Höfundur:
gun
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
gun „Íslensk grös gersemar“, Náttúran.is: 8. júlí 2009 URL: http://nature.is/d/2008/06/10/islensk-gros-gersemar/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 10. júní 2008
breytt: 16. janúar 2011

Skilaboð: