Losun gróðurhúsalofttegunda jókst um 14% á milli ára
Umhverfisráðherra óskar eftir nýrri losunarspá og fundi með álfyrirtækjum
Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda (ghl) jókst úr 3.710 þús. tonnum árið 2005 í 4.235 þús. tonn árið 2006. Það er aukning um 525.000 tonn, eða 14,2%. Þetta kemur fram í nýjum tölum sem Umhverfisstofnun hefur tekið saman fyrir skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Bonn. Þetta er mun meiri aukning en spár hafa gert ráð fyrir. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra hefur óskað eftir nýrri spá frá Umhverfisstofnun og mati á því hvort líkur séu á að Ísland fari fram úr skuldbindingum sínum skv. Kýótó-bókuninni.
Stærsta hluta aukningarinnar má skýra með aukinni losun frá áliðnaði, sem jókst um 404.000 tonn milli 2005 og 2006, eða um 89%. Aukningin er öll frá álveri Norðuráls á Grundartanga og tengist stækkun álversins þar. Mestu munar um losun flúorkolefna (PFC), sem fór úr 18 þús. tonnum CO2-ígilda 2005 í 319 þús. tonn 2006. Þessi losun fellur undir almennar losunarheimildir Íslands samkvæmt Kýótó-bókuninni, en ekki íslenska ákvæðið svokallaða.
Losun ghl frá samgöngum jókst um 146.000 tonn milli áranna 2005 og 2006, eða um 17%, að langmestu leyti vegna vegasamgangna. Umhverfisráðherra óskar eftir því að Umhverfisstofnun skoði losun frá samgöngum og beri saman losun á mann á Íslandi og í öðrum ríkjum sem bera skuldbindingar í loftslagsmálum.
Losun ghl jókst um rúm 24% frá 1990 til 2006. Á skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar, 2008-2012, má losun ghl á Íslandi ekki aukast meira en 10% miðað við losun árið 1990. Að auki hefur Ísland sérstaka heimild til aukningar á losun koldíoxíðs frá stóriðju, íslenska ákvæðið.
Auk þess að óska eftir nýrri losunarspá frá Umhverfisstofnun, mun ráðherra boða fulltrúa álfyrirtækjanna til fundar til þess að ræða skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Árangur hefur náðst á undanförnum árum í minnkun á losun PFC og hefur losunin hérlendis síðustu ár verið með því lægsta sem þekkist á tonn af framleiddu áli. Yfirleitt er nokkur aukning á losun í upphafi starfstíma álvera eða þegar nýjar framleiðslueiningar eru teknar í notkun. Á fundinum með álfyrirtækjunum verður farið yfir þessa losun, hvort hætta sé á því að hún verði meiri en spáð hafði verið og til hvaða ráðstafana sé hægt að grípa ef í það stefnir.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Losun gróðurhúsalofttegunda jókst um 14% á milli ára“, Náttúran.is: 23. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/23/losun-groourhusalofttegunda-jokst-um-14-milli-ara/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 27. apríl 2008