Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra opnaði formlega nýja sýningu í Mývatnsstofu, gestastofu verndarsvæðis Mývatns og Laxár, í húsnæði Umhverfisstofnunar í Reykjahlíð á laugardag. Þar gefst gestum tækifæri til að kynna sér hið sérstaka náttúrufar svæðisins þar sem jarðeldar og vatn hafa skapað umhverfi einstakra og fagurra hraunmyndana ásamt auðugu og fjölbreyttu lífríki.

Um 120 manns komu í gestastofuna á opnunardaginn en sýningin byggir á eldri sýningu frá 1993 sem var fyrst sett upp í núverandi húsnæði árið 2006. Með nýju sýningunni er fræðsluefninu og upplýsingunum í fyrsta sinn búin umgjörð sem hentar því húsnæði sem gert er ráð fyrir að sýningin muni verða í hér eftir.

Kúluskítur og landrek

Auk fjölda fuglategunda felst sérstaða Mývatns ekki síst í kúluskítnum í vatninu en þetta vaxtarform grænþörungsins vatnaskúfs var friðlýst árið 2006. Sérstaða svæðisins á sviði jarðvísinda er engu minni en í Kröflueldum fékkst ómetanleg þekking á eðli eldgosa á Íslandi og urðu menn þar vitni að landreki. Fá svæði í heiminum geta stært sig af sambærilegum hlutum.

Árni Einarsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn sá um gerð fræðsluefnisins og Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir, hönnuður sá um framsetningu sýningarinnar.

Verndaráætlun undirrituð

Við sama tækifæri undirritaði Svandís Svavarsdóttir verndaráætlun fyrir verndarsvæði Mývatns og Laxár. Meginmarkmið hennar er að draga fram verndargildi svæðisins og marka stefnu um verndun þess með tilliti til þeirra markmiða sem sett hafa verið í lögum um verndarsvæðið.

Verndaráætlunin verður aðgengileg á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Birt:
20. maí 2011
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Ný sýning opnuð í Mývatnsstofu og verndaráætlun undirrituð“, Náttúran.is: 20. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/20/ny-syning-opnud-i-myvatnsstofu-og-verndaraaetlun-u/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: