Sigríður Erla Guðmundsdóttir keramikhönnuður hefur hannað séríslenskan leirpott í samvinnu við vöruhönnuðina Guðfinnu Mjöll Magnúsdóttur og Brynhildi Pálsdóttur. Leirinn fá þær úr landi Steinólfs Lárussonar bónda og dóttur hans Höllu Steinólfsdóttur í Ytri-Fagradal en notagildi pottsins var í byrjun sérstaklega hugsað fyrir eldamennsku á hvannarlambakjöti sem kemur frá búi Höllu. Sigríður Erla rekur fyrirtækið LEIR7 í Stykkishólmi en Guðfinna og Brynhildur eiga hönnunarfyrirtækið Borðið.

„Hugmyndin kviknaði í Fagradal og ákváðum við að prófa að búa til eldunarpott fyrir hvannalambakjötið. Þetta er búið að vera mikil og ströng þróun á pottinum sem er úr steypumassa. Mynstrið á honum leitar til jarðarinnar með Holtasóley sem trónir á toppnum og síðan gægjast upp úr pottinum kjúkur sem skírskota til lambakjötsins. Við höfum hugsað leirpottinn sem grip sem við höfum grafið upp úr jörðinni í Fagradal. Við höfum fengið mjög góð viðbrög við þessari nýju vöru og nú er Friðrik fimmti á Akureyri að þróa uppskriftir fyrir okkur þar sem áhersla verður lögð á betri nýtingu á lambakjötinu sem munu fylgja með pottinum,“ segir Sigríður Erla sem hefur unnið með íslenskan leir í 15 ár.

 

Veggmynd til kynningar vígslu leirpottsins í Nýslistasafninu þ. 27. mars sl. Potturinn verður til sölu í KOKKU Laugarvegi 47 frá maí 2009, sjá nánar á vef KOKKU.

Birt:
13. apríl 2009
Höfundur:
ehg
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
ehg „Séríslenskur leirpottur orðinn að veruleika“, Náttúran.is: 13. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/13/serislenskur-leirpottur-oroinn-ao-veruleika/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: