Þjóðinni kynntar tillögur að brú
Á forsíðu Morgunblaðsins sunnudaginn 24. 09. er almenningi boðið að taka þátt í umræðum um fyrirhugaða brúarsmíð yfir Öxará við Drekkingarhyl. Ekki að aldrei hafi verið þar brú heldur er áformað að byggja nýja í stað þeirrar gömlu sem endurbætt var fyrir lþðveldishátíðina árið 1944. Liggur við að uppátækið sé fyndið því hér á þessum fæðingarstað lýðræðisins á loks að fara að spyrja landsmenn hvað þeim finnst um framkvæmdir. Formaður Þingvallanefndar, Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra, ítrekar að ekki verði lagt í smíði brúarinnar ef andstaða kemur fram. Ekki minni arkitekt en Manfreð Vilhjálmsson hannaði brúna og mun kynning um verkið vera að finna á thingvellir.is. Er ekki einmitt þetta það sem hefði átt að gera við nokkuð stærri mannvirki sem ráðist hefur verið í á Íslandi nú á síðustu árum og önnur sem enn er áformað að ráðast í. Er ekki of seint að lífga lýðræðið við fyrir eina brú, þó á Þingvöllum sé?
Myndin er tekin við gjörning Rúríar „Tileinkun“, þ. 09. 09. 2006. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Þjóðinni kynntar tillögur að brú“, Náttúran.is: 24. september 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/tillaga_bru/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 3. maí 2007