Góð einangrun húsnæðis er forsenda þess að hægt sé að halda orkunotkun til hitunar í lágmarki. Nýir þéttilistar í dyrum og gluggum er afar ódýr lausn og dregur verulega úr hitatapi húsa. Talsverður kostnaður fylgir því að bæta einangrun húsa en slíkar aðgerðir borga sig í sumum tilfellum, t.d. samhliða öðru viðhaldi.  Ef endurnýja þarf gler þá borgar sig að setja upp filmugler eða svokallað K-gler sem hefur mun betri einangrunareiginleika en hefðbundið gler. Í eldri húsum getur oft verið hagkvæmt að bæta einangrun í þaki.

Orkusetur hefur sett upp tvær gagnvirkar reiknvélar sem aðstoða húseigendur við að átta sig á þeim orkusparnaði sem fylgir slíkum framkvæmdum. Önnur reiknivélin reiknar út orkusparnað og kostnað við endurglerjun. Notendur velja fyrst veðurstöð næst þeim og síðan stærð gluggaflatar, óskainnhita og glergerð fyrir og eftir breytingar. Reiknivélin gefur upp orkusparnað, efniskostnað og endurgreiðslutíma.  Efniskostnaður felur í sér gler og ísetningarefni en mjög auðvelt er að bæta við vinnukostnaði með því að hækka handvirkt kostnað í reiknivélinni. Smelltu á eftirfarandi slóð til að nálgast reiknivélina:

Gluggaskipti

Önnur reiknivél metur orkusparnað vegna nýrrar klæðningar. Virknin er svipuð, notendur velja fyrst veðurstöð næst þeim og síðan flöt útveggja, óskainnhita, byggingartímabil og að lokum þykkt nýrrar einangrunar. Reiknivélin gefur síðan upp orkusparnað vegna klæðningarinnar og hægt er að reikna fyrir eitt ár eða fleiri. Smelltu á eftirfarandi slóð til að nálgast reiknivélina:

Ný klæðning

Birt:
25. mars 2008
Uppruni:
Orkusetur
Tilvitnun:
Sigurður Ingi Friðleifsson „Einangrun“, Náttúran.is: 25. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/25/einangrun/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: