Hvað er mengun?
Mengun vísar yfirleitt til skaðlegs útstreymis eða útflæðis efna frá samfélaginu út í umhverfið. Um nógu mikið magn efna er að ræða til þess að valda tjóni á heilsu fólks, lífríki eða eignum.
Efni og orka eru í sífelldri hringrás í náttúrunni. Mengun breytir hringrásum náttúrunnar og því efnisflæði sem þegar er til staðar. Oft er mengun einungis fólgin í því að hraða náttúrulegum ferlum, eins og þegar heitu jarðhitavatni er dælt upp úr jarðhitasvæði mun hraðar en það endurnýjast.
Mannkynið losar gríðarlega mikið magn af ýmsum efnum út í umhverfið. T.d. losa samfélög mannanna um 6 milljarða tonna af kolefni út í andrúmsloftið vegna bruna jarðefnaeldsneytis og iðnaðarútsleppis. Þetta er allt að hundraðfalt meira en losnar af völdum náttúrunnar sjálfrar.
Einnig er mengun frá mannlegum samfélögum mjög fjölbreytt að efnasamsetningu. Mörg efni sem við losum út í náttúruna brotna ekki auðveldlega niður, eyðast ekki heldur eru í náttúrunni í þúsundir ára. Aðeins um 1 prósent af öllum efnum sem eru á boðstólnum á mörkuðum heimsins hafa verið ofnæmis- og eiturefnaprófuð.
Stundum er eftirfarandi jafna sett fram:
Mengun = Fólksfjöldi x Tækni.
Sú mengun sem samfélag veldur byggir því á annarsvegar fólksfjölda og hins vegar á tæknistigi þess samfélags. Tæknivæddari mannmörg samfélög menga í þessu samhengi meira en samfélög sem byggja á frumstæðari tækni.
Grafík: Menguð Jörð, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Hvað er mengun?“, Náttúran.is: 3. apríl 2012 URL: http://nature.is/d/2007/04/16/hva-er-mengun/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. apríl 2007
breytt: 3. apríl 2012