Að taka pott
Stundum, þegar tími hefur ekki unnist til að fara út í garðinn eða það er vetur og við erum hugmynda- eða ráðalaus fyrir kvöldmatinn, þá hjálpar að taka pott út úr skápnum, láta hann á eldavélina og sjá hvort hann talar til okkar. Panna eða þungur steypujárnspottur kallar á aðra hugsun og önnur viðbrögð heldur en lítill, léttur stálpottur, sem olía eða feiti er sjaldan eða ekki sett í, og hann því ekki notaður til steikingar af neinu tagi. Það eru tvær aðalaðferðir til að fikra sig eftir.
Að byrja með olíu
Segjum að við höfum tekið fram þunga, bláa pottjárnspottinn. Þá er eðlilegt að byrja með olíu, sem þarf ekki að vera kaldpressuð því við ætlum að hita hana hvort sem er. Þegar olían er komin í pottinn fer að verða spurning um hvítlauk, perlulauk eða búðarlauk sem er brytjaður og látinn meyrna. Ef á að nota karrí, papriku eða cayennepipar fer það í núna.
Grunnurinn að þessari máltíð er annaðhvort kartöflur, hrísgrjón, hirsi eða linsubaunir. Á veturna er gott að blanda saman hrísgrjónum, linsubaunum, kartöflum og grænmeti. Nú er bætt út í pottinn 3 bollum af vatni fyrir grjónin og baunirnar og 1/3 bolla fyrir grænmetið. Þegar suðan kemur upp á vatninu fer í pottinn 1 bolli af hrísgrjónum og 1/2 af linsubaunum, 4-5 kartöflur heilar eða í pörtum og svo annað grænmeti svo sem hvítkál, grænkál, sellerí eða beðja, líka má nota gulrætur eða rófur, einnig þurrkaðar eða frystar kryddjurtir. Sem sagt helmingi meira vatn en grjón og/eða baunir og um það bil 1/3 bolla af vatni til viðbótar fyrir grænmetið. Þetta fer svolítið eftir því hvað suðan er sterk og hvað mikið gufar upp meðan á henni stendur. En best er að sjóða varlega og ætla sér tíma og bæta í vatni ef þarf.
Ögn af sölvum má vera í þessum rétti en hann er aðeins umgerð fyrir hvaðeina sem í pottinn vill fara. Það er smekksatriði hvort maður vill hafa súputening, sem þarf þá að vera góður, eða jurtasalt eða jafnvel kjötflís. Þegar allt er soðið ætti vatnið að vera nokkurn veginn horfið.
Svo má byrja með vatni
Þá er oftast verið að tala um svo mikið vatn að úr verður súpa. Bara að skella vatni í pott. Reikna með að hvít hrísgrjón, hirsigrjón og linsubaunir þurfi 20–25 mínútna suðu (brún hrísgrjón og bygg þurfa miklu lengri). Hvað af þessu viljum við nota? Hnefafylli af grjónum? Baunir með grjónum? Baunirnar einar sér? Svo er að saxa grænmetið ofan í pottinn. Á að vera laukur? Eiga að vera kartöflur eða makkarónur í staðinn fyrir grjón? Eigum við eitthvað sérstakt í dag? Er afgangur frá því í gær, sem er upplagður til að fara í pottinn, kannski undir lokin? Spurning aftur um súputening eða jurtasalt. Svona súpa á sér ekki uppskrift í eiginlegum skilningi, er í eðli sínu naglasúpa. Hún verður til úr því sem finnst.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Að taka pott“, Náttúran.is: 14. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/05/taka-pott/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 5. nóvember 2007
breytt: 14. apríl 2013