Einkabílinn er klárlega ofnotaður í Reykjavík að mati Sigrúnar Helgu Lund ný kjörins formanns Samtaka um bíllausan lífsstíl. „Við viljum láta rödd okkar heyrast, rödd sem andmælir slæmum tillögum, mælir með öðrum góðum og sem styður jafnræði millli samgöngumáta,“ sagði hún á fjölmennum stofnfundi í gærkvöldi.

„Hver og einn þarf að spyrja sig: Hvernig nota ég bílinn? Gæti ég komist leiðar minnar með öðru móti til dæmis gangandi, hjólandi eða í strætó?“ sagði Sigrún á stofnfundi samtakanna sem var á dagskrá Samgönguviku 2008 í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær. 110 manns mættu á fundinn og um það bil 60 manns skráðu sig sem stofnfélaga.

Sigrún Helga Lund hvatti fólk til að skoða samgöngur í víðu samhengi, til dæmis væri hollt að gera sér grein fyrir því að mislæg gatnamót á einum stað skapa nýjan vanda á öðrum stað. „Við viljum greiðari umferð fyrir alla, ekki aðeins einkabílinn,“ sagði hún og tók fram að enginn væri á móti einkabílum heldur allir með fjölbreytni í samgöngum.

„Það þarf ekki nema örlitla skipulagsgáfu til að taka strætó og gera hann þátt í lífi sínu,“ sagði Anna Karlsdóttir sem kosin var gjaldkeri samtakanna. „Það eru oft fordómar sem stjórna umræðu manna um strætó, fordómar sem um leið eru vörn eða afsökun fyrir því að ofnota einkabílinn,“ sagði hún.

„Starfsmaður á einkabíl kostar fyrirtæki 20. þúsund krónur meira á mánuði en bíllaus starfsmaður, og enný á meira ef stæðið er í bílakjallara fyrirtækisins,“ sagði Pawel Bartoszek sem kynnti lög samtakann á fundinum.

Sjá vef samtaka um bíllausan lífsstíl.

Mynd frá fundinum. Sigrún Helga Lund fremst t.h. á myndinni.
Birt:
18. september 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Einkabílinn klárlega ofnotaður í Reykjavík “, Náttúran.is: 18. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/18/einkabilinn-klarlega-ofnotaour-i-reykjavik/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: