Á árinu 2007 voru byggð ný vindorkuver í löndum Evrópusambandsins (ESB) með uppsett afl upp á samtals 8.554 MW. Uppbyggingin í vindorku í álfunni varð þar með meiri en í nokkrum öðrum orkugjafa, en gasorkuver voru í öðru sæti með samtals 8.226 MW. Samanlagt afl kolaorkuvera og kjarnorkuvera minnkaði hins vegar á árinu. Í árslok 2007 var uppsett afl vindorkuvera í löndum ESB komið í samtals 56.535 MW. Þetta dugar til að framleiða 119 TWst í meðalári, um leið og komið er í veg fyrir losun 90 milljóna tonna af koltvísýringi, sem ella hefði losnað frá bruna jarðefnaeldsneytis til orkuvinnslu. Þessar 119 TWst samsvara 3,7% af orkuþörf ESB-landanna, en til samanburðar má nefna að á árinu 2000 fullnægði vindorka innan við 0,9% af orkuþörfinni. Til samanburðar má einnig nefna að raforkuframleiðsla á Íslandi nam samtals rúmlega 9,9 TWst á árinu 2006.
Lesið frétt á heimasíðu EWEA 4. feb. sl.
og kynnið ykkur raforkuframleiðslu á Íslandi í Orkutölum Orkustofnunar Orð dagsins birtast einnig á vef Staðardagskrá 21 á Íslandi samband.is/dagskra21.
Birt:
7. febrúar 2008
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Orð dagsins 7. febrúar 2008“, Náttúran.is: 7. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/07/oro-dagsins-7-februar-2008/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: