Veggspjald til verndar náttúrunni
Frestur til að senda Sveitarfélaginu Ölfusi athugasemdir vegna breytinga
á aðalskipulagi Ölkelduháls á Hengilssvæðinu rennur út 13. maí.
Áhugasamir einstaklingar um verndun íslenskrar náttúru tóku höndum saman
í október sl. um að vekja almenning til vitundar um virkjanaáætlanir á einu fegursta svæði landsins, rétt við bæjardyr höfuðborgarinnar, Helgilssvæðinu. Fyrirhugað er að reisa þar svokallaða Bitruvirkjun rétt vestan við Ölkelduháls.
Heimasíðan www.hengill.nu var sett upp í þessu tilefni og þar voru leiðbeiningar um hvernig mátti bera sig að við að senda athugasemdir vegna umhverfismats. Samtals bárust 678 athugasemdir sem er Íslandsmet.
Nú er komið að næsta skrefi:
Hengilssvæðið hefur lengi verið ein helsta útivistarparadís íbúa höfuðborgarsvæðisins og er skilgreint sem útivistarsvæði á náttúruminjaskrá. Það er ekki síst mikilvægt bakland bæjafélagsins Hveragerði, bæði sem útivistarsvæði íbúa og fyrir ímynd bæjarins sem heilsu- og ferðamannabæjar. Hengilssvæðið er eitt örfárra á suðvesturhorninu þar sem hægt er að ganga um í friði og ró og njóta ótrúlega fjölbreyttrar náttúrufegurðar.
Á veggspjaldinu eru fallegar myndir af umræddu svæði ásamt korti og texta og fólk er hvatt til að senda inn athugasemdir. Einnig er hægt að nálgast leiðbeiningar og tillögu að bréfi á www.hengill.nu.Það er ósk aðstandenda Hengilssíðunnar og veggspjaldsins að umrætt svæði - sem nú þegar er á náttúruminjaskrá – verði friðað til frambúðar.
Athygli er vakin á að öllum landsmönnum er heimilt að senda inn athugasemd og að frestur til að skila þeim inn til Sveitarfélagsins Ölfuss rennur út 13. maí nk., svo hafa þarf hraðar hendur.Myndin er tekin fyrir botni Reykjadals sem liggur örskammt frá fyrihuguðu borsvæði áætlaðrar Bitruvirkjunar. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
2. maí 2008
Tilvitnun:
Hengill.nu „Veggspjald til verndar náttúrunni“, Náttúran.is: 2. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/02/veggspjald-til-verndar-natturunni/ [Skoðað:3. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.