Suðaustlæg átt er ríkjandi á Suðurlandi og því berst aska frá Eyjafjallajökli nú yfir Höfuðborgarsvæðið. Hluti af öskunni er svifryk (PM10). Gildin hafa hækkað hratt og líklegt að þau verði há næstu tvær klukkustundir en búist er við úrkomu í kvöld samkvæmt veðurspá og að þá lækki svifryksgildin hratt. Klukkan 15.30 var hálftímagildi svifryks í mælistöðinni á Grensásvegi 318 míkrógrömm á rúmmetra. Einnig eru gildin há í mælistöðinni í Hafnarfirði.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Þar sem nú er að hefjast annatími í umferðinni í borginni er ástæða til að benda þeim á sem eru með viðkvæm öndunarfæri s.s. lungnasjúkdóma eða astma að vera innandyra. Ekki er þó víst að að styrkur svifryks fari yfir sólarhrings-heilsuverndarmörk í dag en þau er 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Viðbragðsáætlun vegna loftgæða var yfirfarin í apríl til að tryggja viðeigandi vöktun og undirbúning í ljósi eldgossins í Eyjafjallajökli. Fylgst er með ástandinu í samráði við Heilbrigðiseftirlit, Almannavarnir, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Sóttvarnarlækni.  

Íbúar eru geta einnig fylgst með fréttum og kynnt sér upplýsingar og leiðbeiningar á heimasíðu Almannavarna, www.almannavarnir.is og heimasíðu landlæknisembættisins, www.landlaeknir.is  og með vefmæli Reykjavíkurborgar (neðst á heimasíðu www.reykjavik.is) sem sýnir styrk svifryks (PH10) hverju sinni. Heilsuverndarmörk svifryks eru 50 míkrógrömm á rúmmetra á sólarhring.

Frekari upplýsingar veita:
Árný Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur s. 411 8800
Anna Rósa Böðvarsdóttir heilbrigðisfulltrúi s. 693 9678

Varðandi loftgæðum í öðrum sveitarfélögum er vísað á viðkomandi heilbrigðiseftirlit!

Birt:
May 18, 2010
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Tilkynning frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur “, Náttúran.is: May 18, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/18/tilkynning-fra-heilbrigdiseftirliti-reykjavikur/ [Skoðað:May 18, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: