1)    Á þessu stigi er erfitt að meta þann árangur sem náðst hefur með samþykkt texta lokayfirlýsingar Ríó +20. Minnt skal á að fyrir 20 árum var niðurstaðan – þrír nýjir alþjóðlegir samningar, Dagskrá 21 og Ríó-yfirlýsingin – harkalega gagnrýnd fyrir metnaðarleysi. Hið sama gerðist þegar Johannesburg Plan of Implementation var samþykkt árið 2002. Á þessari ráðstefnu er vitnað til þessara samþykkta sem hornsteina umhverfisverndar. Nú vildu allir Lilju kveðið hafa. Öllu verra hefði verið ef ekkert samkomulag líkt og gerðist í Kaupmannahöfn. Nú skiptir mestu máli hvernig niðurstaðan verðu túlkuð þegar þjóðarleiðtogar og ráðherrar tjá sig um niðurstöðuna, að fram komi að þau ríki sem blokkeruðu góðar tillögur voru ósjaldan örfá og undir forustu Bandaríkjanna.

2)    Afstaða Íslands til frjálsra félagasamtaka hefur tekið stakkaskiptum undanfarin ár. Í lokaskjali Ríó +20 er margsinnis ítrekað mikilvægi þess að almenningur, frjáls félagasamtök og aðrir hagsmunaðilar taki þátt í stefnumótun um sjálfbæra þróun. Ella muni tilætlaður árangur ekki nást. Hér er gengið mun lengra en fyrir 20 árum þegar 10. gr. Ríó-yfirlýsingarinnar markaði upphafið að gerð Árósasamningins um rétt almmenings til upplýsinga um umhverfismál, þátttöku í ákvörðunum um umhverfismál og aðgengi réttarúrræðum við úrlausn deilumála. Hér má minna á svar Franklins D. Roosevelts, forseta Bandaríkjanna, þegar hann svaraði umleitunum verkalýðsleiðtoga um úrbætur: „I agree with you, I want to do it, now make me do it.” Roosevelt skildi mæta vel að stuðningur hans dygði ekki til heldur yrði að virkja almenning fyrir framgöngu málsins.

3)    Sá texti sem samþykktur var í gær er á margan hátt ekki eins skýr og afdráttarlaus og sú málamiðlunartillaga sem gestgjafinn, Brasilía kynnti á laugardaginn var. Til dæmis er ekki skýrt hvort eða hvenær skuli ráðast í gerð alþjóðlegs samnings um verndun hafsins utan 200 mílna efnahagslögsögu ríkja þótt ljóst sé að málið er komið á dagskrá. Mikil þörf er á slíkum samningi því þrátt fyrir að leiðtogafundurinn í Jóhannesborg árið 2002 og fundir aðildarríkja samningsins um líffræðilegan fjölbreytileika, t.d. í Nagoya, hafi kallað eftir verndun hafsvæða sem eru mikilvæg fyrir líffræðilega fjölbreytni er enginn samningur til sem getur komið þeim samþykktum í verk á alþjóðlegu hafsvæði. Ekki er ekki minnst á líffræðilegan fjölbreytileika í Hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1982, svo dæmi sé tekið. Á sínum tíma áttu íslensk stjórnvöld, ásamt Argentínu, Chile, Kanada og Nýja Sjálandi, frumkvæði að gerð Úthafsveiðisáttmála Sameinuðu þjóðanna. Íslandi ber að skipa sér í forustusveit þeirra ríkja sem vilja vernda hafið.

4)    Mikilsverður árangur hefur náðst í kaflanum hafið er lúta að verndun hafsins, t.d. að ríki styrki ekki fiskveiðar og stuðli þannig að ofveiði (harmful subsidies). Einnig að tekið verði á ólöglegum, óskráðum og stjórnlausum  fiskveiðum á alþjóðlegu hafsvæði (illegal, unregulated and unreported fisheries, IUU). Ennfremur, mikill meirihluti ríkja styður gerð nýs samnings til verndar hafinu en Bandaríkin, ásamt Japan, Kanada, Rússlandi og Venezúela stóðu í vegi fyrir framgangi þess máls. Miklu skiptir nú að þjóðarleiðtogar og/eða umhverfisráðherrar þeirra ríkja sem veittu hafsmálum forustu árétti stefnu síns lands þegar þeir ávarpa ráðstefnuna.

5)    Óljóst er hvernig tekið verður á ríkisstyrkjum til vinnslu jarðefnaeldsneytis sem veldur gróðurhúsaáhrifum. Slíkir styrkir tefja mjög fyrir orkuskiptum og nýtingu endurnýjanlegrar orku. Stóru iðnríkin hafa tvívegið skuldbundið sig til að draga úr þessum ríkisstyrkjum. Fyrst  á fundi G20 ríkjanna í Pittsburgh árið 2009 og aftur á fundi G20 í Toronto árið 2010 en án sýnilegs árangurs. Mat OECD er að iðnríkin verji 100 milljörðum dollara árlega til styrkja framleiðslu á olíu, kola og gass.
6)    Um einn milljarður manna býr við sára fátækt og 14% jarðarbúa eru vannærð. Við slíkar aðstæður er sjálfbær þróun fjarlægt hugtak. Þessi nöturlega staðreynd hefur að nokkru fallið í skugga efnahagskreppu Vesturlanda, ekki síst Evrópu.

Birt:
20. júní 2012
Höfundur:
Árni Finnsson
Uppruni:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Árni Finnsson skrifar frá Ríó“, Náttúran.is: 20. júní 2012 URL: http://nature.is/d/2012/06/20/arni-finnsson-skrifar-fra-rio/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: