Grænn apríl er umhverfisátak, sem hefur að eitt að markmiði að koma á framfæri við neytendur upplýsingum um vöru, þekkingu og þjónustu sem er græn og umhverfisvæn, svo og upplýsingum um hvaða fyrirtæki bjóða upp á slíkt. Þetta er í annað sinn sem félagasamtökin Grænn apríl standa fyrir þessu mánaðarlanga átaki, með góðri þátttöku fyrirtækja sem vilja skilgreina hluta af eða alla vöru sína sem græna og umhverfisvæna.

Neytendur hafa gífurlega mikið vald og geta ráðið miklu um framtíð okkar og það hversu umhverfisvæn hún verður, því peningar tala sínu máli þegar keypt er inn. Því er svo mikilvægt að neytendur viti upp á hvað íslensk fyrirtæki bjóða svo þeir geti valið grænni kostinn næst þegar þeir kaupa inn.

Árið 2012 er lögð áhersla á samgöngur, húsnæði og vellíðan og verður fjallað um þessa þætti í gegnum framlag  þátttakenda á vefsíðunni www.graennapril.is og á samfélagssíðu okkar á Facebook www.facebook.com/graennapril.is en áhersla er lögð á að dreifa upplýsingum um grænu málin til sem flestra.

Grænn apríl gefur líka út fjögur veftímarit í aprílmánuði, með upplýsingum um grænni leiðir að betri framtíð. Morgunblaðið gefur út sértímaritið Grænn apríl sem dreift verður til áskrifenda 31. mars. Umframeintökum verður dreift í Kringlunni 1. apríl þar sem umhverfisátakið hefst formlega, svo og í gegnum þátttakendur í verkefninu.

Séð og heyrt setur grænu málin í fókus allan mánuðinn og fræðir lesendur um lífið í takt við umhverfið með því að fylgjast með einni fjölskyldu. Skjárinn sendir út 5 örþætti á viku í opinni dagskrá, mánudag til föstudags allan apríl, þar sem þátttakendur og þekktir einstaklingar segja frá sínum hugleiðingum um umhverfið og okkur. Fréttablaðið mun birta greinar um umhverfismál og fréttir tengdar þeim. Ljósvakamiðlar og aðrir miðlar munu einnig miðla góðum og grænum sögum úr ýmsum áttum í Grænum apríl.

Dokkan þekkingarmiðlun stendur fyrir ráðstefnu um umhverfisvænar byggingar, samgöngur og umhverfisstaðla, og Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands stendur ásamt Grænum apríl að viðburði 22. apríl sem er Dagur jarðar. Stefnan er að gera Grænan apríl í ár grænni en hann var í fyrra.

Birt:
1. apríl 2012
Höfundur:
Guðrún Bergmann
Tilvitnun:
Guðrún Bergmann „Umhverfisátakið Grænn apríl hefst í dag“, Náttúran.is: 1. apríl 2012 URL: http://nature.is/d/2012/04/01/umhverfisatakid-graenn-april-hefst-i-dag/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: