Samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins skoðar hugmyndir um Skaftárveitu

Óskar Bergsson, formaður Samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins, hefur með fundarboði til nefnarinnar, dagsett 20. ágúst, sett á dagskrá ”Veitu í Langasjó og síðan í göngum inn á vatnasvið Tungnaár vestan Grænafjallgarðs. Orkugeta allt að 550 GWst/ári. Langisjór verður nýttur sem miðlun.

Þetta framtak Óskars Bergssonar stangast á við þá stefnu umhverfisráðherra að Langisjór verði hluti hins nýja Vatnajökulsþjóðgarðs. Ennfremur segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 2007 að tryggt verði að ekki verði snert við Langasjó í virkjanaskyni.

Á aukafundi sveitarstjórnar Skaftárhrepps þann 29. maí 2008 var samþykkt að stefnt verði að því allt svæðið frá Tungná að mörkum núverandi Vatnajökulsþjóðgarðs verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði í júní 2009.

Spurningin er: Hvað er Óskar Bergsson að dunda?

Sjá fundarboð hér að neðan, dagskrárlið 5:




Til nefndarmanna

Næsti fundur samvinnunefndar miðhálendis verður haldinn fimmtudaginn 4. og föstudaginn 5. september. Gert er ráð fyrir að fundað verði í Hólaskjóli og farið í skoðunarferð að Langasjó og Sveinstindi.

1. Á dagskrá fundar er m.a. umræður og skil vegna samantektar til Umhverfisráðuneytis.

Hver er almennt reynsla nefndarinnar af framkvæmd núverandi svæðisskipulags miðhálendis. Hvernig hefur samráði verði háttað vegna samræmingar aðalskipulags og svæðisskipulags miðhálendis. Í hverju hafa breytingar á núverandi skipulagi aðallega verið fólgnar? Hverjir hafa verið kostir og gallar svæðisskipulagisn sem stjórntækis?
Hvað er það sem skort hefur stefnu um í svæðisskipulaginu? Hvað er það sem helst þyrfti að endurskoða í gildandi skipulagi?

2. Breyting svæðisskipulags í Skútustaðahreppi kynnt. Skipulagsstofnun hefur heimilað auglýsingu- umsagnir frá umsagnaraðilum hafa verið að berast. Að ósk Skipulagsstofnunar hafa verið gerðar breytingar á formi- umhverfisskýrslu. (Geri ráð fyrir að breytingin geti verið að fara í auglýsingu um svipað leyti og fundurinn verður haldinn.)

3. Aðalskipulag Skútustaðahrepps – breytingartillaga vegna rannsóknarborana. (en gert er ráð fyrir að svæðisskipulagið verði auglýst samhliða aðalskipulagsbreytingunni.)

4. Önnur mál

a. Ferðamennska við Laka. Kynning á rannsóknum um þolmörk ferðamennsku á Lakasvæðinu 2007.

5. Skoðunarferð um Fjallabak, Eldgjá, Langasjó-Breiðbak og á Sveinstind. Geri ráð fyrir að föstudagurinn verði hinn langi- við leggjum snemma af stað í skoðunarferð og förum eins langt og við komumst að útfallinu í Langasjó- upp með Breiðbak og ef færi gefst gönguferð á Sveinstind. (þeir sem hafa vilja og nennu) Við verðum með landvörð með okkur. Skoðum hugmyndir um Skaftárveitu 1. ”Veitu í Langasjó og síðan í göngum inn á vatnasvið Tungnaár vestan Grænafjallgarðs. Orkugeta allt að 550 GWst/ári. Langisjór verður nýttur sem miðlun.”
Birt:
4. september 2008
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Hvað er Óskar Bergsson að dunda?“, Náttúran.is: 4. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/04/hvao-er-oskar-bergsson-ao-dunda/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: