Umhverfisráðherra hefur ákveðið að rjúpnaveiðitímabilið í ár standi frá 1. til 30. nóvember. Mælt er með því að veiddir verði að hámarki 38.000 fuglar. Áfram mun ríkja sölubann á rjúpum og rjúpnaafurðum. Ákvörðunin byggir á mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins og mati Umhverfisstofnunar á heildarveiði árið 2006.

Rjúpum fækkar nú annað árið í röð frá síðasta uppsveifluskeiði, en það stóð aðeins yfir í tvö ár samanborið við fjögur til fimm ár í fyrri uppsveiflum rjúpnastofnsins. Að mati Náttúrufræðistofnunar er áætlaður varpstofn 2007 um 110.000 fuglar og er það fækkun um 70.000 fugla frá því í fyrra. Við mat á veiðiþoli er miðað við að hlutföll unga í veiðistofni verði 79% það sama og talningar sýndu síðsumars 2007. Stærð veiðistofns 2007 er metin um 440.000 fuglar og með því mælt að ekki verði veiddir fleiri en 38.000 fuglar í ár.

Miðað við fyrri reynslu af rjúpnastofninum í niðursveiflum, mun rjúpum fækka næstu þrjú til fjögur árin og veiðiþol stofnsins minnka að sama skapi. Það er því ljóst að takmarka þarf rjúpnaveiði enn frekar í ár en gert hefur verið á síðustu árum.

Í ljósi þessa hefur umhverfisráðherra ákveðið eftirfarandi:

 

  • Veiðidagar verða alls 18 á tímabilinu 1. til 30. nóvember.
  • Veiðar verða heimilaðar fimmtudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga.
  • Sölubann gildir áfram á rjúpu og rjúpnaafurðum.
  • Áfram friðað fyrir veiði u.þ.b. 2.600 ferkílómetra svæði á Suðvesturlandi (sjá meðfylgjandi kort).
  • Veiðimenn verða sem fyrr hvattir til að stunda hófsamar og ábyrgar veiðar.
  • Virkt eftirlit verður með veiðunum á landi og úr lofti eftir því sem kostur er.
Efri myndin er af rjúpu í vetrarbúning. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Kortið sýnir svæðið frá Reykjanestá norður til Hvalfjarðar og austur til Selfoss en rjúpur á því svæði verða áfram friðaðar.
Birt:
12. september 2007
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Fyrirkomulag veiða á rjúpu haustið 2007“, Náttúran.is: 12. september 2007 URL: http://nature.is/d/2007/09/12/fyrirkomulag-vei-rjpu-hausti-2007/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 27. september 2008

Skilaboð: