Árangursstjórnunarsamningar undirritaðir
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og forstöðumenn átta stofnana ráðuneytisins undirrituðu nýverið árangursstjórnunarsamninga milli umhverfisráðuneytisins og stofnana þess. Samningarnir festa í sessi samskiptaferli milli ráðuneytisins og stofnananna og eru grundvöllur áætlanagerðar, stefnumótunar og árangursmats. Markmiðið með gerð samninganna er að efla og formfesta samstarf ráðuneytisins og stofnana þess og auka gæði í starfi þeirra.
Samkvæmt samningnum eiga stofnanirnar meðal annars að gera rekstraráætlanir og verkefnaáætlanir þar sem tiltekin markmið og mælikvarðar eru settir fram. Þá eiga stofnanirnar í upphafi hvers árs að skila ráðuneytinu niðurstöðum áætlana liðins árs og upplýsingum um hvernig og hvort settum markmiðum var náð.
Í samningunum er lögð sérstök áhersla á að jafna stöðu kynjanna í allri starfsemi stofnananna.
Stefnt er að því á fyrstu vikum næsta árs að umhverfisráðuneytið ljúki við gerð árangursstjórnunarsamninga við þær fjórar stofnanir ráðuneytisins sem út af standa.
Ljósmynd: Að lokinni undirritun. Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, Stefán Thors, skipulagsstjóri ríkisins, Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri, Hranfnhildur Á. Þorvaldsdóttir, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs og Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands. Umhverfisráðuneytið.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Árangursstjórnunarsamningar undirritaðir“, Náttúran.is: 23. desember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/12/26/arangursstjornunarsamningar-undirritadir/ [Skoðað:2. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. desember 2010