Samkvæmt nýrri spá Umhverfisstofnunar verður losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi innan marka Kýótó-bókunarinnar, að því gefnu að losun flúorkolefna (PFC) frá áliðnaði haldist lág.

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hér á landi jókst úr 3,4 milljónum tonna árið 1990 – sem er viðmiðunarár Kýótó-bókunarinnar – í 4,3 milljónir árið 2006, eða um 24%. Aukning losunar milli áranna 2005 og 2006 var 14%, sem var mun meira búist hafði verið við. Ástæðurnar voru einkum tvær: Mikil aukning í losun frá vegasamgöngum og aukning í losun flúorkolefna (PFC) frá Norðuráli. Í ljósi þessa óskaði Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra eftir nýrri losunarspá frá Umhverfisstofnun, þar sem sérstaklega væri skoðað hvaða áhrif þessir þættir gætu haft á losun til enda skuldbindingartímabils Kýótó-bókunarinnar árið 2012.

Samgöngur

Mikil aukning hefur orðið á losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum á Íslandi á undanförnum árum, eða um 81% frá 1990 til 2007. Stærsta stökkið á milli ára var 2005-2006, þegar losunin jókst um 17%, en bráðabirgðatölur benda til að losunin hafi aukist um 4% milli 2006 og 2007.

Ljóst er að losun frá vegasamgöngum er óvíða meiri í heiminum á mann en á Íslandi, eða um 3 tonn af CO2 og orsakast það bæði af fjölda bíla og háu hlutfalli eyðslufrekra bíla. Fjöldi bíla á hvern mann var hvergi meiri í Evrópu en á Íslandi árið 2005, utan Lúxemborgar og Liechtenstein. Þá var meðallosun CO2 frá nýjum fólksbílum á hvern ekinn kílómetra meiri á Íslandi en í 15 Evrópuríkjum, þar sem tölur fengust til samanburðar. Það bendir til þess að hingað til lands hafa verið keyptir stærri og eyðslufrekari bílar en í öðrum ríkjum.

Umhverfisstofnun bendir á að í maí 2008 kom út skýrsla starfshóps á vegum fjármálaráðherra um heildarstefnumótun um skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Í tillögum nefndarinnar er lagt til að skattlagningu verði háttað þannig að gjöld á eldsneyti og ökutæki taki mið af losun gróðurhúsalofttegunda. Með framkvæmd tillagna í þá veru er líklegt að losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum geti minnkað verulega.

Stóriðja

Ýmis áform eru um nýja stóriðju á næstu árum og stækkun þeirra verksmiðja sem fyrir eru. Bæði RioTinto Alcan í Straumsvík og Fjarðaál á Reyðarfirði hafa kynnt áform um aukningu framleiðslu og í undirbúningi er nýtt starfsleyfi fyrir Sementsverksmiðjuna á Akranesi sem gerir ráð fyrir framleiðslu á 160.000 tonnum á sementsgjalli í stað 125.000 tonna. Starfsleyfi hefur verið gefið út fyrir nýtt álver í Helguvík og nýtt álver á Bakka við Húsavík er nú í mati á umhverfisáhrifum. Það er auðvitað óvissu háð hvort af öllum þessum áformum verði og hvenær. Spánni er ekki ætlað að meta líkindi á hverju verkefni, heldur var óskað eftir því að skoðað yrði hvaða áhrif það hefði ef losun PFC frá álverum yrði meiri en stefnt er að.

Íslensk álfyrirtæki hafa náð góðum árangri við að draga úr losun PFC á undanförnum árum og hefur losunin náðst undir 0,14 tonn CO2-ígilda á hvert tonn af framleiddu áli, eins og bæði stjórnvöld og áliðnaðurinn hafa stefnt að. Það er með því lægsta sem þekkist í heiminum. Undantekning var árið 2006, þegar aukin losun PFC hjá Norðuráli varð til þess að losun PFC frá álframleiðslu nam sem svaraði 1 tonni á tonn af áli fyrir Ísland sem heild. Norðurál hefur gefið skýringar á þessarri aukningu, sem ætti að vera tímabundin, þannig að losunin náist aftur niður fyrir viðmiðunarmörkin 0,14 tonn á skuldbindingartímabilinu 2008-2012.

Niðurstöður Umhverfisstofnunar sýna að ef losun PFC yrði 1 tonn CO2-ígilda á áltonnið á ári á þessu tímabili – líkt og var árið 2006 – þá færi heildarlosun Íslands langt upp fyrir mörk Kýótó-bókunarinnar, eins þótt ekki væri gert ráð fyrir losun frá nýjum verksmiðjum í Helguvík og á Bakka. Við slíkar aðstæður þyrfti að útvega um 2,8 milljónir tonna af losunarheimildum með landgræðslu, skógrækt eða kaupum á heimildum erlendis frá. Umframlosun um 2,8 milljónir tonna í CO2-ígildum myndi kosta yfir 50 milljónir evra, miðað við að tonnið af CO2 kosti 20 evrur. Árétta skal að slík niðurstaða er ólíkleg í ljósi góðs árangurs íslenskra álfyrirtækja. Umhverfisstofnun undirstrikar mikilvægi þess að áliðnaðinum takist áfram að halda losun PFC í skefjum.

Varðandi spána

Niðurstöður Umhverfisstofnunar eru settar fram í þremur sviðsmyndum eftir ólíkum forsendum og er töluverður munur á væntanlegri losun gróðurhúsalofttegunda í þeim. Allar sviðsmyndanna gera ráð fyrir verulegri aukningu í losun á fyrsta skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar 2008-2012, miðað við 1990, einkum vegna aukinnar álframleiðslu. Í tveimur sviðsmyndanna er gert ráð fyrir að losun Íslands verði innan marka Kýótó-bókunarinnar eða rétt við þau mörk, en þar er gert ráð fyrir að takist að halda losun PFC frá áliðnaði innan þeirra marka sem að er stefnt. Í þriðju sviðsmyndinni er gert ráð fyrir mikilli losun PFC, en þá færi Ísland sem fyrr segir yfir mörk Kýótó-bókunarinnar.

Varðandi spána í heild bendir Umhverfisstofnun á að óvissa ríki um hvort af öllum áformum um nýja stóriðju og stækkun núverandi stóriðju verði og þá hvenær. Þá auka áhrif efnahagskreppunnar væntanlega enn á óvissu varðandi spána.

Spá Umhverfisstofnunar (pdf).
Birt:
18. nóvember 2008
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Spá um losun gróðurhúsalofttegunda“, Náttúran.is: 18. nóvember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/11/18/spa-um-losun-groourhusalofttegunda/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: